152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[16:42]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég held að ég og hv. þingmaður verðum kannski ekki sammála um markmið í loftslagsmálum vegna þess að ég lít ekki svo á að markmiðið sé að auka útgjöld heldur að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar og áhrif af þeirra völdum, sem eru þegar farin að sýna sig og kosta líka pening. Þær upphæðir munu hækka til framtíðar og þó að við myndum fimmfalda eða tífalda framlög til loftslagsmála í dag þá myndi sá peningur alltaf skila sér aftur, bæði í betra samfélagi strax og í því að koma í veg fyrir dýrar og kostnaðarsamar hamfarir sem geta kostað mannslíf.

En gott og vel, ég ætlaði ekki að tala um þetta í mínu seinna andsvari heldur um annað sem hv. þingmaður vék að; afglæpavæðingu vímuefna. Ég held að þar sé málum nokkuð snúið á haus. Það að líta á fólk með fíknisjúkdóm sem glæpamenn en ekki sjúklinga sem beri að hjálpa er gríðarlega kostnaðarsamt. Það hægir á og kemur í veg fyrir bata þessa fólks. Það veitir því inn í réttarvörslukerfið. Það gerir það að glæpamönnum, það veldur eymd og volæði frekar en að verja smápeningi í að taka aðeins utan um þetta fólk og hjálpa því út úr sjúkdómum. Þannig að ég held að einhverjar óljósar hugmyndir um gríðarlegan kostnað (Forseti hringir.) við afglæpavæðingu vímuefna byggi bara á einhverjum grundvallarmisskilningi á (Forseti hringir.) málinu, því að þjóðfélagið mun spara, ekki bara pening heldur losna við hörmungar.