152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:03]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu fyrir andsvarið. Jú, mér þykir þetta vera ankannalegt. Það lá fyrir fyrir mörgum mánuðum síðan að þessi ríkisstjórn ætlaði sér að endurnýja heitin. Henni var í lófa lagið að láta kjósa í vor. Það var ekkert því til fyrirstöðu annað en bara það að vilja sitja til haustsins. Ég sá enga ástæðu fyrir því að framlengja þetta tímabil á þann veg að við myndum kjósa hér í myrkri. Undanfarið erum við búin, eins og hv. þingmaður nefnir, að kjósa 28. og 29. október. Það er svolítið sérstakt að við skulum gera það. Eins og ég nefndi í framsögu minni er sveitarfélögunum uppálagt að boða til kosninga að vori. Það skal bara gert og ef einhver meiri hluti fellur þá ber sveitarstjórn að búa til nýjan meiri hluta og klára kjörtímabilið. Hér í þinginu eru bara aðrar reglur. Hér getur ríkisstjórnin ákveðið að sitja stutt eða lengi eða bara eins og henni hentar. Þannig að jú, mér finnst það skrýtið og það er eins og það líðist meiri losarabragur á störfum ríkisstjórnar en störfum sveitarfélaganna.