152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég verð bara að svara strax: Nei, því miður. Ég þekki vel til aðstæðna einstæðra foreldra og sérstaklega fyrir rúmum fjórum árum, áður en ég kom á þing, þá var ég í Sjálfsbjörgu, í Öryrkjabandalaginu, í kjarahópi Öryrkjabandalagsins og Evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun og þar kynntist maður þessum hópi. Ég myndi ekki segja að þetta væri neitt rosalega stór hópur, ekkert óviðráðanlegt að sjá til þess að þessi hópur geti lifað og komist upp úr sárafátækt. En það er ekki einu sinni verið að reyna að taka þennan hóp úr sárafátækt upp í fátækt. Það sem er kannski skelfilegast þegar við tökum þetta hugtak, einstæðir foreldrar — hvað þýðir þetta? Jú, það þýðir að þetta er eitt foreldri með barn. Þá hugsa ég með mér: Hver er staða þessara barna? Þetta eru kannski eitt, tvö, þrjú börn í þessari aðstöðu. Við vitum það, það er búið að sýna það, ár eftir ár, að þessir foreldrar og þessi börn lifa við ömurlegar aðstæður. En það er alltaf talað, ríkisstjórnin talar um að bæta þessa stöðu, ég hef heyrt þau segja: Nú þarf að taka á því og sjá til þess að bæta stöðu einstæðra foreldra. Það koma skýrslur sem sýna að þetta er hópurinn sem stendur verst. Það er talað og talað en það kemur hvergi fram í niðurstöðu. Það er ekkert gert. Því óttast ég að enn einu sinni verði ekkert gert. Það verði talað en það skili engu, því miður.