152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[19:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er nefnilega akkúrat þetta með nýtt kerfi — hvernig myndi ég t.d. byrja að nálgast nýtt kerfi? Ég hef oft verið að hugsa um hvernig við gætum byrjað. Ef við værum nokkurn veginn í góðum heimi myndum við segja við öryrkjann: Farðu út og finndu þér vinnu, þú mátt vinna og svo færðu tekjur. En við myndum byrja á því að segja: Við ætlum ekki að skerða þig þegar þú ert kominn í meðaltekjur í þeirri vinnu sem þú ert í. Það myndi kannski lyfta viðkomandi. Við skulum segja að hann sé með 200.000 kr. á mánuði, kæmist kannski í 350.000 kr. útborgaðar og það myndi ekkert skerðast. Allir myndu græða, viðkomandi fengi meiri pening og ætti þá vonandi aðeins betra líf og ríkið myndi fá skattpeninga af því að okkur vantar vinnandi fólk. Við erum alltaf að tala um að í framtíðinni vanti okkur vinnandi fólk, þannig að ég hef aldrei getað skilið það að við séum að banna fólki að vinna. En síðan segjum við, sem er rúsínan í pylsuendanum, sem ég tók eftir í umræðunni: Þeir sem ekki treysta sér til að fara yfir í nýja kerfið og treysta sér ekki til að vera þar geti farið aftur í gamla kerfið. Í hvað? Í eymdina þar.

Ætlum við að búa til kerfi þar sem fólk er í sárafátækt, fær smátíma til að fara út úr því kerfi og sér hvernig það getur lifað aðeins betra lífi. Síðan veikist fólk og getur ekki haldið áfram og þá á það að fara aftur í sárafátæktina. Hvers lags ofbeldi er það? Við verðum að ganga frá því í gamla kerfinu að fólk geti lifað mannsæmandi lífi. Síðan færir fólk sig aftur og fer aftur í mannsæmandi líf en ekki í eitthvert ömurlegt kerfi sem það gat ekki verið í áður og skilaði engu.