152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[19:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Umræðan um fjárlagafrumvarpið byrjaði með sérstökum hætti hér í byrjun dags með eðlilegri umræðu um fundarstjórn í ljósi þess að frumvarpið hafði verið sent út til umsagnar án þess svo mikið að sú nefnd sem um málið fjallar hefði verið kölluð saman. Þetta er óvanalegt og hefur að mér sýnist, svona á seinni stigum, ekki gerst nema þegar mjög sérstakar aðstæður hafa verið uppi. Í lok árs 2017 þá gerist þetta þegar menn eru í mjög þröngri stöðu tímalega í ljósi ríkisstjórnarslita og kosninga og þar fram eftir götunum. Ég vona að þessi klaufalega byrjun á þessari vegferð muni skoðast í því samhengi að fall sé fararheill þegar upp verður staðið.

Ef við horfum á stóru myndina í því fjárlagafrumvarpi sem nú er lagt fram horfum við áfram á það að báknið vex. Hér er farið í uppstokkun Stjórnarráðsins, uppstokkun sem er þeirrar gerðar að starfsmenn ýmissa stofnana og ráðuneyta vita varla hvert þeir eiga að mæta til vinnu daginn eftir. Það er auðvitað enginn bragur á þessu og undirstrikar að þetta virðist allt með einum eða öðrum hætti ganga út á það að tryggja nægjanlega marga stóla og að hægt sé að skipta þeim þannig að allir verði bærilega sáttir.

Þegar við erum að koma út úr því ástandi sem við höfum verið í að verða tvö ár, sem þetta Covid-tímabil hefur orsakað, er hreinlega alveg ótrúlegt að fylgjast með því sem er ekki hægt að kalla annað en virðingarleysi stjórnvalda fyrir skattpeningum borgaranna. Við erum að horfa núna á útþanda gjaldahlið, útgjöld upp á 1.203 milljarða, og þetta er grundað að miklu leyti á fjármálaáætlun sem samþykkt var síðastliðið vor til næstu fimm ára. Menn þurfa ekki annað en að fara til baka og skoða umræðuna sem þá átti sér stað. Hún var auðvitað öll á þeim nótum að á þessu plaggi yrði ekkert byggt, menn væru að sigla inn í kosningar og það kæmi bara í ljós með hvaða hætti ný ríkisstjórn myndi taka á málum. Að minnsta kosti einn formaður núverandi stjórnarflokka gaf svo lítið fyrir plaggið sem þessi fjárlög byggja á að hann lýsti því þannig að í framhaldinu mátu menn það sem svo að hæstv. ráðherra, ég leyfi mér að segja formaður Framsóknarflokksins, hefði hent plagginu í ruslið. Það er grundvöllur þessarar lagasetningar. Svo koma hér fulltrúar meiri hlutans og segja: Fjármálaáætlunin sem við byggjum þetta plagg á var svo vel grunduð að við þurftum lítið að gera. Þetta var allt saman tilbúið. Auðvitað er það ekki svoleiðis og í því ljósi vil ég hvetja fulltrúa í fjárlaganefnd til þess að taka sér þann tíma sem þarf til að vinna þetta mál, kalla þá til sem þarf að kalla til og rýna almennilega í þetta því það er alveg örugglega þannig að einhverjir þættir eru undirfjármagnaðir og einhverjir þættir eru yfirfjármagnaðir, eitthvað vantar og eitthvað er fullkomlega óþarft. Og þó að við séum komin inn í desember núna þá er staðan sú að það eru ekki nema nokkur ár síðan fjárlagafrumvarpi var ekki dreift fyrr en ef ég man rétt 14. desember. Það kláraðist þannig að við erum ekkert svo aðþrengd í tíma. Við tökum þann tíma sem þarf.

Heildarútgjöld núna eru 1.203 milljarðar. Það er auðvitað gríðarleg upphæð í ekki stærra samfélagi en þetta og minnir á það að íslensk þjóð er með þeim alskattpíndustu innan OECD-ríkjanna. Þegar búið er að taka tillit til fjármögnunar lífeyrissjóðakerfisins og það sett á sambærilegt plan flestra þeirra þjóða sem þar bera sig saman þá erum við í topp þremur sætunum. Ég held að oftast séum við í öðru sætinu hvað heildarskattbyrði varðar. Miðað við það sem liggur hér fyrir þá er ekkert sem bendir til þess að við séum að komast úr þeirri stöðu í fyrirsjáanlegri framtíð.

Sem betur fer var það þó þannig að þegar Covid-ástandið brast á var ríkissjóður í býsna góðri stöðu. Sá tími er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og sá árangurinn sem náðist m.a. í uppgjöri slitabúa á þeim tíma eða í framhaldinu skapaði í raun þann grunn sem við stóðum á þegar þetta ástand brast á. Ég tel rétt að halda því til haga við þetta tilefni, sérstaklega af því að mér þykir heldur óvarlega með ríkissjóð farið.

Í þessu samhengi er eiginlega ekki hægt að sleppa því — og ég bið forláts á því að ég er ekki enn þá komin inn í efnisatriði fjárlagafrumvarpsins en stundum þarf maður bara aðeins að létta á sér. Ég hef fylgst töluvert lengi með stjórnmálum, ungur eins og er, og ég hef aldrei séð aðra eins framgöngu ráðherra og meðferð á opinberu fé eins og í aðdraganda þessara kosninga, hreinlega aldrei. Því var lýst þannig að sumir ráðherrar hefðu varla komist fram úr vikum saman öðruvísi en að dreifa tugum ef ekki hundruðum milljóna í þær áttir sem þeir töldu líklegt að viðbótaratkvæði féllu til eða þá að það þyrfti að fá einhvern til að taka sæti á lista. Þá allt í einu fékk sá málaflokkur prýðis fyrirgreiðslu sem hafði verið hafnað árum saman. Korter í kosningar. Þetta eru skattpeningarnir okkar. Þetta er skattpeningar sem við gætum verið að gera býsna góða hluti fyrir en enduðu sem öflugasti kosningasjóður þeirra kosninga sem nú eru nýliðnar. Það er enginn bragur á þessu. Við eigum örugglega eftir að fara betur í gegnum þetta og ég vil kasta því fram að það blasir við að óska verður eftir skýrslu frá ríkisendurskoðanda um það með hvaða hætti þessir hlutir áttu sér stað því þetta er auðvitað ekkert annað en misnotkun á stöðu og misnotkun á opinberu fé.

Svo ég komi mér nú aðeins inn í fjárlagafrumvarpið þá þykir mér, eins og ég segi, útgjaldahlutinn býsna þaninn, rúmlega 1.200 milljarðar í heildarútgjöld. Tekjuhliðin er töluvert nettari. Að því sögðu þá er lausn mála ekki sú að hækka tekjurnar með viðbótarsköttum, nægjanlega erum við skattpínd fyrir sem þjóð. Við verðum, eins og hefur verið svo oft sagt hér í dag, að vaxa út úr þessari stöðu en það verður ekki gert með því sem blasir við núna. Fyrirtæki landsins finna sig í þeirri stöðu að það er bara tilviljanakennt hvort þau eiga í samskiptum við ríkisstjórn sem nálgast þeirra mál frá vinstri eða hægri. Við sjáum það t.d. ef við horfum bara á heilbrigðisgeirann með hvaða hætti þeir sem stóðu í einhvers konar einkarekstri eða bara frjáls félagasamtök, nefnum Krabbameinsfélagið, voru hanteruð á liðnu kjörtímabili. Það er ekki víst að það verði til bóta, þegar kemur að því að framleiða okkur út úr þeirri stöðu sem við erum í núna með verðmætaaukningu og verðmætasköpun, að fyrirtæki landsins séu undirorpin þeirri óvissu að vita ekki hvort ára reglusetningar, banna og kvaða sé yfirvofandi í þeirra umhverfi eða hvort frelsið fái að ráða. Þá er ég ekki í neinu samhengi að segja að það eigi að vera frelsi til að gera hvað sem er. Við þurfum auðvitað öll að ganga fram, hvort sem það er fólk eða fyrirtæki, með þeim hætti að forsvaranlegt sé og í samræmi við landslög.

Mig langar núna að nefna nokkur atriði í fjárlögum sem ég vona að fjárlaganefnd, sem ég á ekki sæti í, taki til sérstakrar skoðunar. Í fjárlögum er komið inn á — m.a. í samhengi við þann stórfurðulega hluta fjárlaganna sem er kallaður skattastyrkir sem gengur út á það að útskýra fyrir okkur borgurunum að ríkið eigi þetta með einum eða öðrum hætti allt saman og láta af miklu lítillæti svo vel við okkur að skilja eftir eitthvað í þeim vösum sem unnu fyrir verðmætunum. Þetta er svona dæmi um það hvernig kerfið tekur yfir. Þegar lög um opinber fjármál voru samþykkt, þeim var dreift í september 2015 og samþykkt fyrir áramót það ár, var þar sakleysisleg orðskýring í 14. tölulið 3. gr. þar sem segir: Skattastyrkur. Og hvað skyldi skattastyrkur nú þýða? Þetta er óttalegt orðskrípi en það sem segir í lögum um opinber fjármál er að skattastyrkur þýði „eftirgjöf á skattkröfu á hendur skattgreiðenda vegna sérstakra aðstæðna eða atvika“. Eftirgjöf á skattkröfu. Þetta er 2015. Hvað þýðir þetta í dag? Í fjárlagafrumvarpinu er þessu lýst sem svo, undir lið 4.4 Skattastyrkir, með leyfi forseta:

„Yfirlit um skattastyrki, sem sjá má í meðfylgjandi töflu,“ — sem skiptir ekki máli upp á efnisatriði núna — „gefur til kynna aðkomu ríkisins að ýmsum málefnum í formi fjárhagslegs stuðnings sem ríkið veitir í gegnum skattkerfið fremur en með fjárframlögum sem færast á gjaldahliðina. Heildarumfang skattastyrkja er áætlað 3,1% af VLF á næsta ári. Neðra þrep VSK er uppspretta um helmings skattastyrkjanna í heild og reiknast hann sem munurinn á neðra þrepinu og almenna þrepinu eða 13 prósentustig af skattstofni.“

Hvaða rugl er þetta? Það er eins og þeir sem stjórna líti svo á að það sem er ekki tekið af okkur borgurunum með hærri sköttum sé svona hjartahlý eftirgjöf. Það að stjórnvöld líti svo á að munurinn á hærra og neðra virðisaukaskattsþrepi, gagnvart t.d. matvöru og annarri nauðsynjavöru, sé einhvers lags gjöf er álíka galið og sú staða sem við fundum okkur í fyrir ekki löngu síðan þegar ríkisstjórnin heimtaði af okkur skatta, hverju og einu, og öllum fyrirtækjum landsins og skilaði síðan 5.000 kr. til baka og kallað það gjöf, ferðagjöf.

Það sem ég vil draga fram í þessu samhengi er að við erum á einhverjum vondum stað hvað það varðar að nálgast skattborgarana og fyrirtæki landsins, með þá hugsun sem skín hér í gegn í fjárlagafrumvarpinu. Lýsingin á þessum furðulegu skattastyrkjum er alveg eðlileg og lógísk ef við horfum á það með hvaða hætti þetta kemur inn í lög um opinber fjármál þar sem segir, eins og ég kom inn á áðan: Eftirgjöf á skattkröfu á hendur skattgreiðenda vegna sérstakra aðstæðna eða atvika. Þetta er skattastyrkur. Við erum farin að kalla muninn á efra og neðra virðisaukaskattsþrepi skattastyrk. Svo eru menn stórir upp á sig og berja sér á brjóst og segja: 3,1% af vergri landsframleiðslu er skattastyrkur sem við færum borgurunum með einum eða öðrum hætti. En þetta er allt saman vitleysa og stenst enga skoðun. Við eigum að hætta þessu. Nóg um það. Ég ætla aftur að reyna að komast inn í fjárlögin sjálf, vona að ég missi ekki þráðinn aftur alveg í bráð.

Ég nefndi það í ræðu minni í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra að stjórnarsáttmálinn væri uppfullur af orðunum „áfram“ og „áframhaldandi“. Það væri með einum eða öðrum hætti verið að teygja á þeim lopa sem var spunninn hér á síðasta kjörtímabili. Áfram og áframhaldandi var þarna úti um allt. Það átti að vinna áfram að hinu og þessu og þar fram eftir götunum. En það er eitt verkefni sem virðist eiga að fasa út sem er verkefnið Allir vinna, sem var útvíkkað á tímum Covid-aðgerða og fært m.a. yfir viðhald á bílum og fleiri þætti, endurgreiðsluhlutfall hækkað og þar fram eftir götunum. Ég vil óska eftir því að fjárlaganefnd skoði það sérstaklega hvort skynsamlegt sé að láta þá aðgerð fasast út akkúrat núna þegar verð á hrávörumörkuðum hækkar jafn ört og raunin er þessa mánuðina, þegar við horfum á þann húsnæðisskort sem veldur hækkun húsnæðisverðs og þrýsting á verðbólgu og fleiri þætti. Er akkúrat núna tímapunkturinn til að láta þetta fasa út? Ég er ekki viss um það.

Annað atriði sem mig langar til að koma inn á snýr að samgöngum, skattlagningu á nýjum bílum og skattlagningu og gjaldtöku á ökutækjum og umferð. Ég hef verið í umhverfis- og samgöngunefnd undanfarin fjögur ár þar sem samgöngur hafa varla verið ræddar öðruvísi en að benda á það augljósa, að það sé nauðsynlegt að innleiða nýtt kerfi hvað varðar gjaldtöku fyrir notkun á vegakerfinu. Núverandi gjaldakerfi er að fasast út jafnt og þétt með breytingu á eldsneyti bifreiða þar sem bílar eru að fasast úr því að vera dísil- og bensínbílar hægt og rólega yfir í það að verða knúnir rafmagni eða öðrum orkugjöfum. Það er búið að kalla eftir þessu allt síðasta kjörtímabil, þetta var ekkert bara að byrja undir lok síðasta kjörtímabils, það var búið að kalla eftir þessu allt kjörtímabilið en ríkisstjórnin heyktist á þessu. En nú allt í einu virðast menn hafa vaknað. Hvenær vöknuðu menn? Jú, þegar fór aðeins að sjá á skattstofninum. Menn eru því miður ekki gjarnir á það þessi misserin að horfa fram í tímann. Menn eru alltaf að bregðast við. Við verðum að uppfæra þessa nálgun. En það er nefnilega annað sem hangir á spýtunni. Ég hef í flestum andsvörum mínum á fyrri stigum í dag spurt stjórnarliða sem hafa komið hér upp hver staða mála er hvað varðar svokölluð samvinnuverkefni, PPP, lög sem voru samþykkt hér á síðasta kjörtímabili og innifela sex verkefni sem á að vinna í samstarfi ríkis og einkaaðila. Þarna eru m.a. göng undir Reynisfjall, það er Hornafjarðarfljót, það er vegurinn um Öxi, ný Hvalfjarðargöng, Sundabrautin er þarna inni. Ég vil afsaka að ég er að gleyma einhverju einu verkefni sem er þarna inni. (Innanrh.: Ölfusá.) — Já, þakka þér fyrir, hæstv. innanríkisráðherra og félagi úr umhverfis- og samgöngunefnd á liðnu kjörtímabili, Jón Gunnarsson. Auðvitað er það brúin yfir Ölfusá. Staðan er sú að á meðan þessi nýi gjaldagrunnur fyrir notkun vegakerfisins er ekki útfærður þá þorir auðvitað enginn að hreyfa sig í þessum efnum. Það er ekki hægt að segja að við höfum fundið lausn á þessu varðandi Hvalfjarðargöngin á sínum tíma. Núna er verið að horfa til miklu stærri útfærslu sem verður væntanlega yfirfærð á fleiri verkefni. Þess vegna þarf að vanda til verka og ég held að það sé ekki hægt að komast áfram með þetta á meðan við erum ekki búin að uppfæra gjaldtöku á vegakerfinu heildstætt. Ég fagna því að þetta sé til umræðu núna en ég vil jafnframt gagnrýna það að þetta sé til umræðu fyrst núna því það er búið að kalla eftir þessu lengi og það blasti við að þetta yrði alvöruvandamál.

Annað sem ég vil koma inn á er skattlagning á nýjum bílum. Bílgreinasambandið, eða a.m.k. fulltrúi þeirra, var í fjölmiðlum fyrir ekki mörgum vikum síðan og var að fara yfir það hvernig þessi innleiðing eða umbreyting yfir í nýorkubíla væri að eiga sér stað og lýsti yfir miklum áhyggjum af því að það yrðu slit á milli, bæði hvað afhendingu bíla varðar inn á íslenska markaðinn og fjárfestingu eða endurnýjun heimila landsins, ef þessi ívilnun fasaðist út núna. Þetta væri að mörgu leyti að gerast af sjálfu sér. Verð rafmagnsbílanna væri að lækka og gæðin að aukast og þar fram eftir götunum en menn þyrftu eitt til tvö ár í viðbót sem eru nú væntanlega tvö til þrjú en látum það liggja milli hluta, það er ekki stóra málið í þessu. En í öllu falli þá voru áhyggjurnar þessar og ég taldi þá framsetningu sem þar var stuðst við býsna trúverðuga. Því var í rauninni haldið fram að þetta væri að gerast á næstu tveimur árum, að við þyrftum ekki lengur að hafa áhyggjur af þessu, þetta myndi gerast af sjálfu sér. Framleiðendur væru meira og minna allir komnir með bíla á samkeppnishæfu verði í þeim flokkum sem Íslendingar þurfa helst á að halda og það verður að halda því til haga að Ísland er væntanlega með hæsta hlutfall fjórhjóladrifsbíla á byggðu bóli, ætla ég að leyfa mér að segja.

Þetta allt færir mig síðan að því sem kom fram í framsöguræðu hæstv. fjármálaráðherra varðandi framlög til loftslagsmála þar sem kom fram að frá núverandi stöðu yrði bætt við milljarði á ári sem safnaðist upp. Milljarður fyrst, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, sjö, átta og upp í tíu á tíu árum þannig að það eru 10 milljarðar á ári í viðbótarframlag til loftslagsmála miðað við það sem nú er. Verði það raunin er algjört lykilatriði að við förum með ígrunduðum hætti í gegnum það með hvaða hætti peningarnir eru best nýttir. Ég held að drjúgur hluti af þessu yrði betur nýttur til ýmissa annarra þjóðþrifaverkefna. En verði þetta raunin þá verðum við að nýta fjármunina í hluti og þætti sem skipta máli. Við megum ekki finna okkur í þeirri stöðu að vera maurinn sem vill leiða hestahjörðina í þá átt sem hún er hvort sem er að fara. Hvað varðar rafmagnsbílana þá stýrumst við af því hvað stóru framleiðendurnir erlendis gera en ekki einhverjum aðgerðum hér heima. Við þurfum að leyfa markaðnum að vinna með þessari umbreytingu sem er að eiga sér stað. Við eigum hvorki að reyna að keyra hana hraðar né hægar heldur en markaðurinn býður upp á. Það er mikill munur á tengiltvinnbílum eða „hybrid“-bílum frá því sem var fyrir bara nokkrum árum síðan. Þetta er að gerast á býsna góðum hraða. Njótum þess bara, látum þetta gerast. Við skulum ekki eyða orkunni í það að reyna að hraða þessu meira en markaðurinn styður við. Það eru ekki til neins gagns. Raunin er auðvitað sú að þær ívilnanir sem þessu tengjast eru allar innviklaðir í þessum furðuskattastyrkjum. Ég ímynda mér að það sé ein línan í samtölunni á skattastyrkjum, tapaðar tekjur af nýorkubílum, rafmagnsbílum. Við verðum að snúa þessu við. Við verðum að hætta að horfa þannig á að ríkið eigi þetta allt saman til að byrja með. Við borgararnir, fólkið, heimilin og fyrirtækin, við búum til þessi verðmæti. Ríkissjóður, ríkið, er að taka þetta af okkur, ekki á hinn veginn. Þannig að varðandi skattlagningu á nýorkubílum vil ég óska eftir því að hv. fjárlaganefnd taki þetta til sérstakrar skoðunar og kalli til sín fulltrúa Bílgreinasambandsins sem hafi þá tækifæri til að fara yfir þetta því að ég held að það skipti raunverulega máli að þessi þróun með einum eða öðrum hætti falli ekki milli skips og bryggju.

Það vekur athygli að það er töluverður samdráttur fyrirhugaður á framkvæmdahlið fjárlaganna, sérstaklega í samgöngumálum. Auðvitað er hluti af því að ýmis átaksverkefni sem ráðist var í tengslum við Covid-ástandið eru að renna sitt skeið á enda. En það kom fram í andsvari hæstv. fjármálaráðherra við mig hér í byrjun umræðunnar að það hefði verið erfitt að koma fjármununum út. Það voru miklar fjárveitingar en framkvæmdir hafa ekki haldið í við þær fjárveitingar sem til ráðstöfunar hafa verið. Og hvers vegna skyldi það nú vera?

Fyrir rúmum tíu árum varð hér bankahrun, köllum það það, og það má eiginlega segja að það hafi verið skrúfað fyrir meira og minna allar fjárfestingar hins opinbera um nokkurra ára skeið. Síðan þá hefur þetta allt meira og minna, hvort sem það eru hjúkrunarheimili, byggingar fyrir sérstakar stofnanir, vegakerfið eða annað, allt verið unnið í átaksverkefnum. Á meðan fyrirsjáanleikinn er ekki til staðar — þetta eru allt saman átaksverkefni — byggja fyrirtækin sig ekki upp og þeim fjölgar ekki eins og myndi gerast ef menn væru með skýra línu í því með hvaða hætti innviðauppbyggingin ætti sér stað og menn gætu planað. Verk gætu stækkað, þau næðu yfir lengri tíma. Þetta myndi allt verða til gagns hvað það varðar að ná bæði fram hagræðingu í verkefnum, lægra verði, meiri gæðum, fjölga fyrirtækjum sem réðu við stór verkefni þannig að við værum ekki í þeirri stöðu sem við erum í í dag, að koma ekki peningunum út. En auðvitað er hluti af því að koma ekki peningunum út þetta ótrúlega flókna eftirlitskerfi, sérstaklega í mannvirkjageiranum, sem tefur býsna mörg verkefni sem ættu að vera á fleygiferð. En það er annað mál og verður vonandi tekið upp hér í þinginu í vetur. Ég vona því að okkur takist að koma meiri framtíðarsýn inn í hugsunina sem snýr að framkvæmdahliðinni. Við erum með samgönguáætlun til 15 ára en fjárveitingarnar rokka eins og eitthvert hjartalínurit. Það er ekki líklegt til þess að styrkja og/eða fjölga þeim verktökum sem eru bærir til að vinna alvöruverkefni. Þetta er hlutur sem verður að koma til skoðunar núna í þessu samhengi. Eftir tvö ár af Covid-aðgerðum er fyrirsjáanleiki og festa mikilvægari en nokkru sinni fyrr fyrir fyrirtæki landsins.

Mig langar að nefna tryggingagjöld. Ég spurði hæstv. fjármálaráðherra um þetta í andsvari fyrr í dag. Það kemur mér á óvart að á milli ára, miðað við uppfært mat á tekjum af tryggingagjaldi árið 2021 og yfir til ársins 2022, séu tekjur ríkissjóðs að fara úr 93 milljörðum í 107, af þessum skatti sem er skattur á fólk í vinnu, sem er auðvitað býsna öfugsnúið. En á meðan við erum í atvinnuleysi sem er rétt um 5% þá verð ég að viðurkenna að ef þetta er allt vegna þess að hækkun sem ekki varð er látin ganga til baka og skýrist af því, og færist þá væntanlega í skattastyrkjadálk fjárlaganna, þá er nauðsynlegt að það komi fram við skoðun fjárlaganefndar á þessum þætti eða hvort menn eru einfaldlega að skjóta yfir markið hvað þetta mat varðar.

Ég vil jafnframt nefna að það verður að fara með ígrunduðum hætti í gegnum stofnanakerfi hins opinbera. Í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra voru nefnd til sögunnar ýmis ný verkefni sem fyrirséð eru á grundvelli stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Og bara af því að ég enda á þeirri síðu þá nefndi hæstv. ráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir í gær að það ætti að stofna tónlistarmiðstöð, það ætti að stofna nýja sviðslistamiðstöð, það ætti að styrkja starfslaunasjóði listamanna og svona var þetta auðvitað á fleiri málefnasviðum. Við verðum að reyna að ná utan um þetta. Það er eiginlega algjört lágmark að fjárlaganefnd átti sig á hvað er í pípunum á grundvelli stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar með nýjum stofnunum, fjölgun starfsmanna og auknum styrkjasjóðum. Þarna er ég ekki að segja að þetta sé allt óþarfi. Við verðum bara að vita um hvað ræðir. Það er alger lágmarkskrafa. Ég gef mér að hv. þm. Björn Leví Gunnarsson spyrji um þetta í fjárlaganefnd.

Í þessu samhengi vil ég benda á grein sem birtist á vef Samtaka atvinnulífsins núna fyrir nokkrum dögum þar sem farið er yfir möguleika á sameiningu eftirlitsstofnana. Þau eru auðvitað þyngri en tárum taki, ýmis mál sem hafa komist til umræðu undanfarið og hafa með einum eða öðrum hætti komið frá Samkeppniseftirlitinu og ég er kannski sérstaklega að hugsa um mál Festis og Krónunnar, ef mig misminnir ekki með dótturfélagið sem þar um ræðir. Við getum ekki verið á réttu róli ef það er algengt að mál þróist með þessum hætti.

Hér undir lokin vil ég bara nefna eitt og halda því til haga. Á vef fjármálaráðuneytisins skoðaði ég hvernig áætlað er að fjárfestingar í samgöngumálum muni þróast til ársins 2024. Það kom mér ekki á óvart að lækkun milli ára væri 22,4% (Forseti hringir.) í þennan þátt en það kom mér á óvart að lækkun næstu þriggja ára væri 37%, uppsafnað. Það er alveg örugglega meira (Forseti hringir.) heldur en flaggað var í kosningabaráttunni sem er nýlega um garð gengin. — Ég á eftir að fara í svo marga punkta, hæstv. forseti, að ég vil biðja þig að setja mig aftur á mælendaskrá.