152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[20:24]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þetta góða andsvar. Ég og hv. þingmaður erum nú ekki alltaf sammála en þarna erum við býsna sammála, heyrist mér. Það er auðvitað algerlega ótækt að við þingmenn séum reglulega í þeirri stöðu að taka afstöðu til réttindamála án þess að vita hver kostnaðurinn af því er. Það hefur reglulega komið upp og ég hef sjálfur tekið þátt í nokkrum slíkum umræðum. Við höfum formað lög um opinber fjármál, sem búa til eins furðulegt utanumhald og það sem snýr að hinum svokölluðu skattstyrkjum, sem er auðvitað hanterað allt öðruvísi í fjárlögum í dag en uppleggið var í lagasetningunni á sínum tíma. Á meðan það er staðan öðrum megin að við getum ekki lagt með ígrunduðum hætti fyrir þingmenn hvaða kostnaður felst í hinum ýmsu réttindum sem við erum að innleiða af góðum huga — það er algjört lágmark að við fáum að vita hvað það kostar sem við erum að samþykkja. Að því leyti tek ég fullkomlega undir það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson sagði hér rétt í þessu.