152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[20:30]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið en ég held að þessi stórkostlega aukning til Stjórnarráðsins fram undan sé ekki endilega vegna fjölgunar stöðugilda — og þó. Það kann líka að vera að samnýting á starfskröftum í sömu málaflokkum sé fyrir bí núna þegar t.d. er verið að dreifa menntamálunum á sex ráðuneyti eða ég veit ekki hvað þau eru mörg og að þarna verði slíkt óhagræði að þetta fari ekki í raunveruleg störf heldur fari einmitt í það óhagræði sem verið er að skapa. Það virðist ekki vera nein heildaryfirsýn yfir verkefnið, enda búið til í skjóli nætur rétt fyrir helgi á fyrsta í aðventu. Maður veltir því fyrir sér hvort við séum að fara að horfa upp á alveg gríðarlega sóun í kerfinu.