152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[20:32]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hræddur um að svarið við þeirri spurningu sem hv. þingmaður bar fram í lokin, varðandi þá sóun sem er yfirvofandi í þessari tilteknu aðgerð, sé já. Ég hef ekki haft tækifæri til að kafa ofan í tölurnar en ég gef mér að hv. fjárlaganefnd geri það því að þessar hlutfallstölur og breyting þeirra eru auðvitað með miklum ólíkindum. Ef þetta var verðmiðinn fyrir það að búa til einn ráðherrastól til að halda þessu hjónabandi þriggja aðila, þótt maður sé á hálum ís að tala á þeim nótum, þá er hann býsna hár og gæti verið töluvert hærri en þyrlupeningarnir sem ráðherrar dreifðu í aðdraganda kosninga til stuðnings eigin kosningabaráttu.