152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:12]
Horfa

innanríkisráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir hefur farið hér yfir mál sem er viðkvæmt. Hún gerir það af nokkurri þekkingu enda hefur hún starfað, eins og fram hefur komið, á þessum vettvangi. Hún sagði hér og gaf þessu svokallaða Dyflinnarsamkomulagi algjöra falleinkunn, kallaði þetta það vitlausasta samkomulag sem Evrópusambandið hefði gert. En þetta er nú það samkomulag sem Evrópuþjóðir hafa komið sér saman um að vinna eftir.

Það er alveg rétt að kostnaður við þennan málaflokk hefur aukist mikið. Við erum með um 3,4 milljarða, fyrir utan reyndar kostnað Útlendingastofnunar og kærunefndar hælisleitenda, og hann hefur vaxið. Við glímum við þann vanda núna að hingað leitar fjöldi hælisleitenda þrátt fyrir að við séum með Covid-ástand. Það er ekki svo einfalt að við getum bara leyft fólki að vera hér áfram (Forseti hringir.) og halda því fram að það hafi ekki neinn kostnað í för með sér. Auðvitað höfum við skyldur gagnvart þeim sem við tökum á móti og við þurfum að ná þess vegna þessari skilvirkni í kerfið og til þess að geta nýtt þetta fjármagn, (Forseti hringir.) það er enginn að tala um að lækka þetta fjármagn, til að byggja upp líf þess fólks sem hér heldur áfram að vera.