152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:25]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk kærlega fyrir þetta. Ég tek undir þetta sem framhald af orðum mínum um að við verðum að hugsa um þetta sem fólk og við verðum að átta okkur á því að þessu fólki, eins og öllu öðru fólki, góðu og velviljuðu fólki sem hingað leitar, fylgja auðvitað mikil verðmæti.

Í ræðu sinni hér áðan talaði þingmaðurinn um þær sálrænu afleiðingar sem fylgja bið fólks eftir svörum um hvað verður um þess hagi eftir því sem málum vindur fram innan kerfisins. Það væri kannski ágætt að fá bara stutt svar um það — að reyna að setja okkur aðeins betur inn í það hvernig fólki líður í þeirri óvissu sem fylgir því að koma inn í þetta kerfi og þurfa að danglast hingað inn, bíða eftir lyktum mála, oft kannski vitandi að lyktirnar verða ekki eins og lagt var upp með og vonast var eftir.