152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[21:28]
Horfa

félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur kærlega fyrir þessa góðu umræðu. Ég er mjög ánægður með að sjá málsvara innflytjenda og flóttamanna jafn sterkan og hana hérna inni á þingi. Við vitum það öll að flóttamönnum mun fjölga í heiminum á næstu árum, m.a. vegna loftslagsbreytinga, og ekki ólíklegt að við sjáum mun fleira fólk leita að betra lífi í öðrum ríkjum en það býr í í dag.

Kannski heyra flestir þættir af því sem hv. þingmaður kom inn á undir innanríkisráðherra en ég fann mig knúinn til að taka örlítinn þátt í umræðunni líka því að það heyrir jú undir málefnasviðið um innflytjendur og flóttamenn í ráðuneytinu hjá mér, m.a. samningar um það sem tekur við eftir að fólk kemur til landsins. Það er þar sem mig langar aðeins að koma inn í umræðuna vegna þess að ég tel að þegar fólk er komið hingað til lands sé það algerlega siðferðisleg skylda okkar að reyna að auðvelda fólki sem allra mest að aðlagast samfélaginu. Það hvílir líka sú skylda á okkar herðum að auka skilning á aðstöðu þessa fólks, auka skilning á því hvaðan það kemur, úr hvernig aðstæðum, en líka hvernig menningu, þannig að það eigi auðveldara með að aðlagast og við getum komið í veg fyrir fordóma í garð þessa fólks.

Tíminn er búinn, hæstv. forseti. Ég held áfram á eftir.