152. löggjafarþing — 3. fundur,  2. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[22:11]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vildi nú gjarnan grípa boltann á lofti af því að það var verið að tala um eldri borgarana og þar kom þessi setning sem hefur endurómað hjá stjórnarliðum undanfarna daga: Það er forgangsmál að bæta kjör eldri borgara. Ég vona að hv. þingmaður taki því ekki illa en mér finnst svolítið forvitnilegt að heyra þetta frá honum af því að hann er eini þingmaðurinn sem hefur verið bæði í stjórn og stjórnarandstöðu það sem af er þessu kjörtímabili og á síðasta kjörtímabili flutti hann innblásnar ræður einmitt um það að ríkisstjórnin væri ekki að standa sig á mörgum sviðum. Af hverju ættum við að trúa því í dag, þingheimur og svo ekki sé talað um eldri borgara, að núna verði hægt að bæta kjör eldri borgara þegar þessir flokkar sem nú sitja í ríkisstjórn, að minnsta kosti tveir þeirra, hafa óslitið haft þetta á stefnuskránni frá 2013 og þriðji flokkurinn verið við völd með þeim í fjögur ár? Af hverju ættum við að trúa því að eitthvað gerist betra og meira á þessu kjörtímabili heldur en þeim sem liðin eru undanfarin ár?