152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:14]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nú er það svo að það kom minnisblað frá lagaskrifstofu Alþingis þess efnis að ekki væri nauðsynlegt að bíða niðurstöðu undirbúningskjörbréfanefndar varðandi það að hefja þingstörf og hefði þinginu því verið í lófa lagið að byrja að rýna fjárlögin, til að betri bragur yrði á því þegar útgjaldaaukningin er með þessum hætti. Við sjáum fram á mjög mikla hækkun, t.d. þegar kemur að stjórnsýslu ráðuneytanna. Það er sérstakt áhyggjuefni og eitthvað sem við þurfum að rýna vel í út af þeim ofboðslegu breytingum sem þar eru. Þá veltir maður fyrir sér hvort kannski hefði verið heppilegra að hefja þessa umræðu og þessa vinnu þó að ekki væri algerlega niðurneglt hverjir yrðu í komandi ríkisstjórn (Forseti hringir.) því að varla hafa núverandi ráðherrar getað komið svo mikið að málum.