152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[12:11]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alltaf gott þegar nýtt samstarfsfólk á orðastað við okkur í fyrsta skipti og er sammála. Það gefur vonandi fyrirheit um gott samstarf næstu fjögur árin í stjórnarandstöðu. Ég svaraði spurningunni um hvort pólitíkin væri dauð eins og rætt var í stefnuræðu neitandi af því að ég tel auðvitað að fjárlög eins og þarna birtast séu skýr pólitísk yfirlýsing um íhaldssemi, afturhaldssemi, kjarkleysi og fálæti gagnvart ójöfnuði. Þegar ég hef talið þetta upp hlýt ég að komast að sömu niðurstöðu og hv. þingmaður um að þetta séu ekki fjárlög sem beri merki þess að vinstri flokkur, róttækur vinstri flokkur, sem stundum hefur kallað sig sósíalistaflokk, sé í forsætisráðuneytinu. Það eru auðvitað bara sár vonbrigði og gerir baráttu okkar fyrir betri heimi erfiðari. Alveg eins og hv. þingmaður talaði um verða flokkar sem eru sama sinnis og hafa svipaða stefnuskrá, þó að þá greini örlítið á um ýmislegt, að vera bandamenn ef við eigum að breyta einhverju. Þeir eiga ekki að fara að starfa með þeim sem vinna beinlínis gegn grunnstefnu þeirra.