152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:07]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hingað komin til að taka undir sjónarmið sem ég heyrði í ræðu hv. þingmanns um haustkosningar. Ég er þeirrar skoðunar að í venjulegu árferði værum við hér að eiga innihaldsríkt samtal um útgjaldahliðina annars vegar og um tekjuhliðina hins vegar til þess að þroska þessa vinnu og vonandi skila góðum fjárlögum í þágu alls almennings.

Ég er líka þeirrar skoðunar að þegar ríkisstjórnin ákveður það, án þess að þurfa þess, að fara í haustkosningar þá sé það ákvörðun sem er alltaf á kostnað almennings í landinu. Ég velti því fyrir mér í því sambandi hvort þingmaðurinn hafi skoðun á því t.d. hvort þurfi með einhverjum hætti í regluverki okkar að verja almenning fyrir þessum vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og fyrir þessari niðurstöðu, einfaldlega með því að við tímasetjum það hvenær fjárlagavinnan þarf að fara fram eða kosningar.