152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:11]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef oft kallað það sjálfhverfu ríkisstjórnarflokkanna, eigingirni, að ákveða að halda haustkosningar. Það er gert með það að markmiði að hafa aðeins lengri tíma við ríkisstjórnarborðið til að útdeila landsins gæðum, helst án eftirlits Alþingis. Vegna þess að þau gátu það lagatæknilega séð ákváðu þau að gera það, burt séð frá afleiðingunum, burt séð frá því hvað það þýddi fyrir fjárlagavinnuna, burt séð frá því að það gæfi auðvitað minni hlutanum miklu minni tíma til að veita það aðhald sem minni hlutinn á að veita við gerð fjárlaga, nú og fyrir utan auðvitað tímaskortinn sem umsagnaraðilar upplifa nú, sem hagsmunaaðilar upplifa nú, við að koma sínum ábendingum á framfæri. Þetta er ekki hægt, virðulegi forseti.