152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[14:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef bara áhyggjur af því að grunninnviðir samfélagsins séu í einkaeigu. Fyrir einkaaðilann er ekki hægt að tapa á þeim af því að um leið og komið er í óefni í rekstrinum neyðist ríkið til að grípa inn í, fyrir utan hvernig þetta veikir stöðu okkar, veikir getu okkar til að tryggja grunninnviði samfélagsins. Vissulega deili ég þessum áhyggjum og þetta er bara hluti af vandanum sem hefur skapast í kringum það að halda kosningarnar svona seint, að halda þinginu líka í lamasessi svona lengi.

Við sáum það síðasta vor að þá voru haustkosningar m.a. réttlættar með því að það ætti að vera þingstubbur í lok sumars til að afgreiða stjórnarskrártillögur en svo þegar ekkert varð af því var réttlætingin fyrir haustkosningum farin. Hún var ekki til staðar lengur. Þarna var fráfarandi ríkisstjórn að hirða fimm mánuði af næstu ríkisstjórn, (Forseti hringir.) í undirbúningstíma við fjárlög, við að koma sér inn í ráðuneyti sín o.s.frv. Það er náttúrlega mjög ólýðræðislegt og algjör óþarfi.