152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Svarið er já við spurningu hv. þingmanns. Ef við horfum á hópinn sem þarf að treysta á örorkubætur og getur ekki unnið fulla vinnu þá eru stóru hóparnir þeir sem þurfa á geðheilbrigðisþjónustu að halda og svo þeir sem glíma við stoðkerfisvanda. Þetta eru tveir stóru hóparnir. Hvernig eigum við að bregðast við? Við eigum auðvitað að bregðast við með aukinni heilbrigðisþjónustu og aukinni vinnuvernd því stoðkerfisvandinn kemur oft af álagi í vinnu eins og t.d. hjá sjúkraliðum sem fara í bakinu o.s.frv. Fyrirbyggjandi aðgerðirnar hljóta að verða til þess að minnka kostnað og við þekkjum það sem höfum horft upp á fjölskyldumeðlimi t.d. bíða eftir mjaðmaskiptaaðgerð, segjum það, að það kallar á alls konar kostnað í kringum einstakling sem getur varla bjargað sér heima og getur heldur ekki unnið. Biðlistarnir búa til kostnað í kerfinu úti um allt kerfið en líka félagsleg og heilsufarsleg vandamál inn í framtíðina. Það hlýtur því að vera forgangsmál að taka á þessum biðlistum.

Geðheilbrigðisvandamálin eru auðvitað stór og þar þarf að fara í sérstakt átak og ég trúi ekki öðru en að hæstv. ríkisstjórn fari í það mál.

Varðandi allt sem snýr að börnum: Ég talaði í ræðu minni um börn sem hafa greinst með ADHD — snemmtæk íhlutun er það sem skiptir öllu máli fyrir betra og heilbrigðara líf í framtíðinni.