152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:14]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta bara algerlega forkastanlegt. Þetta er það sem við þingmenn þurfum að ræða og ég vona sannarlega að þeir sem sitja í fjárlaganefnd geri það og ég mun beita mér fyrir því í velferðarnefnd að þetta verði sérstaklega tekið til umræðu. Í fyrsta lagi kemur þetta allt of seint. Við hefðum þurft að fá þessa heilsugæslu fyrir nokkrum árum síðan og það eru þúsundir Suðurnesjamanna sem ná sér í heilsugæsluþjónustu á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að hún er ekki til staðar suður frá. Ég á ekki orð yfir það hvernig er búið að fara með Heilbrigðisstofnun Suðurnesja sem hefur verið fjársvelt árum saman og fjárframlög hafa ekki fylgt íbúafjölgun sem hefur verið mjög mikil undanfarin ár og íbúasamsetningin er þannig að þjónustan er þyngri(Forseti hringir.) og það þarf að kosta meira til fyrir túlka o.s.frv., út af íbúasamsetningunni. Að svara þessari spurningu á einni mínútu er allt of lítill tími. En við skulum gefa okkur tíma til að fara yfir þetta áður en þessi fjárlög verða afgreidd.