152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:16]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni eru þessi fjárlög um margt óljós, þ.e. hvernig framkvæmdin verður í raun. En ég ætla í seinni ræðu að nefna fáein dæmi um það hvers vegna þessi fjárlög eru á margan hátt ekki til þess fallin að auka verðmætasköpun eða gera samfélagið betra heldur frekar til þess að draga jafnvel úr verðmætasköpun og rýra kjör. Einnig, ef tími vinnst til, ætla ég að nefna dæmi um það með hvaða hætti fjárlögin hindra þau tækifæri sem eru til staðar til að auka verðmætasköpun í samfélaginu og bæta kjör.

Ég ætla að byrja á loftslagsmálum, sem ég kom lítillega inn á í fyrri ræðu. Nálgunin í loftslagsmálunum hefur fyrst og fremst verið sú af hálfu þessarar ríkisstjórnar, til að byrja með, að auka framlög til málaflokksins. Það virðist vera sjálfstætt markmið að eyða sem mestu í málaflokkinn án þess að gerð sé raunhæf eða raunveruleg tilraun til þess að útskýra með hvaða hætti þessi auknu framlög muni bæta umhverfið eða draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. En það sem verra er, í framkvæmd, miðað við loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar, mun þetta að líkindum, jafnvel, draga úr framlagi Íslands til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda því stærsta framlag Íslands er auðvitað framleiðsla á mjög mikilli umhverfisvænni orku og nýting þeirrar orku til að framleiða umhverfisvænar vörur fyrir heiminn, eins og ál.

Fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow ekki alls fyrir löngu birti ríkisstjórnin rit um stefnu sína í umhverfismálum. Ég hef bara fundið ritið á ensku, frú forseti, en mun í fljótheitum gera tilraun til að þýða nokkrar setningar yfir á íslensku, setningar úr einni þeirra sviðsmynda sem lýst er í þessu riti um það hvernig Ísland eigi að þróast til framtíðar. Það er sviðsmynd D sem ég vísa í, enda fer ekkert á milli mála að þeir sem leggja fram þessa skýrslu og þessi markmið telja það vænlegustu framtíðarsýnina. Þar er talað um að samfélagið verði fjölþætt hringrásarsamfélag og allir mjög meðvitaðir. En svo er komið að raunverulegum áhrifum, æskilegum áhrifum, miðað við þessa sviðsmynd og þar kemur fram að það verði þá engin álver á Íslandi í þessu nýja samfélagi, hagkerfið muni reiða sig á fjölþættan smáiðnað. Það verði minni fiskveiðar, minni landbúnaður, minni bæir og minni ferðaþjónusta. Þetta er með öðrum orðum skortstefna en þarf ekki endilega að koma okkur á óvart því það er í samræmi við svo margt sem komið hefur frá þessari ríkisstjórn áður í umhverfis- og loftslagsmálum. Reyndar verður að segjast að við sjáum það sama gerast í öðrum vestrænum ríkjum, mörgum hverjum, en ríkisstjórn Íslands hefur einsett sér að toppa sem flesta aðra í þessum efnum og draga samfélagið, efnahagslífið, saman hraðar en aðrir og það í landi sem hefur í raun hlutfallslega minna svigrúm til slíks en önnur lönd vegna þess að við framleiðum nú þegar nánast alla okkar orku á endurnýjanlegan, umhverfisvænan hátt.

Svo er haldið áfram í þessari sviðsmynd um framtíðar-Ísland að mati ríkisstjórnarinnar. Þá verður samfélagið byggt á minni neyslu, það verði minni neysla í samfélaginu, aukin áhersla á endurnýtingu og grænar lausnir, og allir þessir helstu frasar, og fyrir vikið hafi úrgangur minnkað verulega, þ.e. sorp, vegna þess að fólk kaupi einfaldlega minna, lífskjör hafi versnað, fólk geti síður keypt hluti og af því leiði að það verði minna sorp. Það hefur dregið úr eftirspurn eftir því að ferðast í þessari sviðsmynd. Mataræði hefur breyst, frá því að fólk borði kjöt, íslenskt lambakjöt, yfir í ýmiss konar plöntur og matvöru unna úr þeim, og fyrir vikið hafi landbúnaður tekið stakkaskiptum og færst frá því að ala t.d. sauðfé eða nautgripi yfir í annars konar ræktun.

Það er haldið áfram — ég sé, frú forseti, að tíminn líður mjög hratt, svoleiðis að ég ætla ekki að klára þessa yfirferð núna, ég fæ eiga það inni þangað til seinna, en aðalatriðið og ástæðan fyrir því að ég er að rekja það hér er að ríkisstjórnin leggur upp með að eyða milljörðum á milljarða ofan, tugum milljarða, síhækkandi ár eftir ár, í það að draga úr lífsgæðum og verðmætasköpun á Íslandi, því landi sem leggur mest til af öllum löndum í baráttunni við loftslagsbreytingar, í baráttunni gegn losun koltvísýrings. Áhrifin verða þá væntanlega þau, eins og við höfum séð gerast í öðrum löndum, að framleiðslan, verðmætasköpunin, færist til annarra landa sem framleiða orku ekki á eins umhverfisvænan og endurnýjanlegan hátt og Íslendingar, heldur jafnvel með kolabruna, eins og í Kína þar sem álframleiðsla losar tífalt meira en á Íslandi.

Ég sé að ég næ ekki að komast yfir nema brot af því sem ég ætlaði að ræða í þessari ræðu en ég verð þá að láta nægja að nefna borgarlínuna og áform í samgöngumálum aftur örstutt af því að það tengist þessum áformum í loftslagsmálum sem, eins og ég nefndi áðan, munu væntanlega hafa þveröfug áhrif hvað varðar losun gróðurhúsalofttegunda en gera Íslendinga fátækari í leiðinni, og í þetta á að eyða einhverjum tugum milljarða ár eftir ár.

Borgarlínan er á vissan hátt sama eðlis því að hún er alveg einstaklega óhagkvæm framkvæmd. Við höfum séð sams konar framkvæmdir í öðrum löndum fara langt fram úr áætlun, jafnvel margfalt fram úr áætlun, enda dæmigert með svona verkefni, þar sem ákvörðunin er ekki byggð á raunverulegri hagkvæmni heldur einhverri óljósri hugmyndafræði, að þau fari langt fram úr áætlun. En það sem þó er verst við þessi áform er að menn virðast ekki hafa hugmynd um hvað þetta muni kosta, hvað framkvæmdir muni kosta, hvað ríkið muni þurfa að leggja í þetta næstu ár og líklega áratugi, bara við að byggja þetta, búa það til, hvað þá hvað reksturinn muni kosta. Ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar hafa ekki treyst sér til að lýsa því yfir að ríkið ætti ekki að fjármagna reksturinn fyrir borgina. Með öðrum orðum, ríkisstjórnin ætlar væntanlega bæði að sjá um að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík og svo fjármagna reksturinn til allrar framtíðar.

Rétt eins og í loftslagsmálunum, í hvaða tilgangi er þetta gert? Eða réttara sagt, frú forseti, hver verða raunveruleg áhrif? Við sjáum það ítrekað þessa dagana að það er sitthvað í málum þessarar ríkisstjórnar, yfirlýst markmið og raunveruleg áhrif. Þetta er allt spurning um umbúðir, kynningu, frasa og slíkt. Hver verða raunveruleg áhrif af borgarlínu? Þau verða þau að þrengja enn að umferð á höfuðborgarsvæðinu, taka eina akrein í hvora átt, tvær akreinar, og þrengja þannig að umferðinni, enda kom það fram í skýrslu danskra ráðgjafa sem unnu að undirbúningi verkefnisins, sem mega eiga það að þeir voru hreinskilnir með að það þyrfti í rauninni að þrengja að umferðinni enn meira til að neyða fólk upp í þessa borgarlínu. En það er ekki víst að jafnvel það muni duga. Engu að síður liggur fyrir að ríkisstjórnin er hér að verja milljörðum á milljarða ofan, tugum milljarða næstu árin, í verkefni sem eru ekki bara til óþurftar heldur til tjóns. Um leið lítur hún fram hjá tækifærum til að viðhalda eða auka á verðmætasköpun í samfélaginu, til að mynda með því að hverfa frá verkefninu Allir vinna. Nú þegar húsnæðismarkaðurinn er einna helsta áhyggjuefni okkar hér á þinginu þá ákveður ríkisstjórnin að hætta með þessar skattafslætti vegna framkvæmda sem hafa reynst mjög vel (Forseti hringir.) og mun þá væntanlega leiða til hækkandi húsnæðisverðs. Með öðrum orðum, svo margt af þessu er svo dýrt en til óþurftar og tjóns.