152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:27]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýddi á ágæta ræðu hv. þingmanns þar sem hann er sem fyrr að tala um útgjöld og útgjaldapólitík þessarar ríkisstjórnar. Ég hjó eftir því að í framsöguræðu hæstv. fjármálaráðherra þá kom fram að mér fannst mikilvæg viðurkenning því hann talaði um það að vöxtur útgjalda yrði framvegis að vera hóflegri en hann hefur verið. Í því felst auðvitað viðurkenning á því að vöxturinn hefur verið óhóflegur. Ég er sjálf hlynnt því að við séum jafnframt hófleg í skattapólitík, að skattar fái að þjóna því hlutverki sem þeim er ætlað að þjóna; veita börnum jöfn tækifæri, heilbrigði, menntun, velferð og það allt saman. En ég velti fyrir mér og það er spurningin: Fjárlög eru afgreidd með stuttri atrennu, eins og hæstv. fjármálaráðherra talaði líka um, og hvaða áhrif heldur hv. þingmaður að það hafi á þessi grundvallarelement sem undir liggja, útgjöld, skatta? Fer eiginleg alvöruumræða hér fram?