152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:32]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Við spjöllum ansi oft um borgarlínuna hérna á einhverjum forsendum og ég varð var við það að í ræðu hv. þingmanns var talað um einhverja tugi milljarða, jafnvel á ári, ég er ekki alveg viss um að þær tölur standist með nokkru móti, og að greiningar o.s.frv. hafi ekki verið byggðar á hagkvæmnisjónarmiðum og ekki heldur vitað hvað rekstur muni kosta. Nú er ekkert rosalega erfitt að finna greiningar um þetta bara á viðeigandi vefjum, hjá Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu o.s.frv., sem útskýra að það var vissulega verið að velja á milli leiða og velja hagkvæmustu leiðina og þar var farið yfir rekstrarhluta líka og borið saman við hvernig rekstur væri með því að bæta við fleiri akreinum og þess háttar. Ég bara velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi skoðað þetta.