152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil það ekki heldur. En ég virði það þó við hv. þingmann að verja stefnu Pírataflokksins í þessu máli. Þetta er ekki bara stefna Samfylkingarinnar, það er líka stefna Pírata sem ríkisstjórnin er hér að innleiða. Ég skil að hv. þingmaður sé þakklátur fyrir það að ríkisstjórnin taki að sér að fjármagna hugmyndir meiri hlutans í borgarstjórn Reykjavíkur. En það er hins vegar ekki rétt sem hv. þingmaður heldur fram. Nú vísa ég bara í gögnin, og við munum örugglega fá fleiri tækifæri til að ræða þessa borgarlínu, ég og hv. þingmaður, það er ekki rétt sem hann heldur fram að það verði alls staðar um nýjar akreinar fyrir borgarlínuna að ræða, að þetta snúist bara um að breikka vegina á höfuðborgarsvæðinu. Nei, það er ekki svoleiðis. (Gripið fram í.) Jón Gunnarsson, kallar einn hv. þingmaður hér fram í, myndi kannski vilja það, en hann fékk því ekki framgengt. Svoleiðis að það verða teknar akreinar á mörgum af helstu samgönguæðum borgarinnar, m.a. og ekki hvað síst til þess að þrengja að umferðinni sem er sjálfstætt markmið með borgarlínunni.