152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:47]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef gert það og ég deili áhyggjum hv. þingmanns. Ég skal ekki ergja hv. þingmann með því að tala meira um borgarlínuna að sinni vegna þess ég veit hv. þingmaður getur ekki komið aftur upp að svara. Ég vil þó einfaldlega segja þetta almennt: Þegar litið er til innviðafjárfestinga ríkisins eða sveitarfélaga þarf að líta til hagkvæmni og áhrifa á samfélagið í heild. Ég tel að ónefnt fyrirbæri geri það ekki heldur sé til tjóns eins og ég rakti hér áðan. Það atriði sem hv. þingmaður lagði áherslu á, varðandi innviðauppbyggingu, er einmitt eitt af þeim atriðum sem gefa til kynna að fjárlagavinnan hafi kannski ekki verið nógu pólitísk heldur líti ríkisstjórnin svo á að hún haldi bara áfram í lausagangi og leyfi kerfinu að gera það sama og það hefur verið að gera. Við sjáum meira að segja á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að hún hefur líklega ekki verið tilbúin þegar ríkisstjórnin var mynduð (Forseti hringir.) því að þar er t.d. einn ráðherra kallaður mennta- og barnamálaráðherra. Ég held að það heiti núna skóla- og barnamálaráðherra. Þetta hefur því allt verið gert á einhverjum handahlaupum.