152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[15:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Við ræðum hér fjárlög. Umræðan í þingsal hefur verið virkilega áhugaverð og í sjálfu sér meiri pólitík í henni en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eftir ríflega tveggja mánaða yfirlegu. Hvað varðar fjárlögin sem við ræðum má það sama segja um þau, það er ekki mikil pólitík í þessu plaggi, svo merkilegt sem það nú er í ljósi mikilvægisins. Ég kem kannski betur að því hér á eftir, hinu pólitíska innleggi ríkisstjórnarinnar, en þessar pólitísku línur sem þingið er að ræða, við sem hér erum — þá erum við fyrst og fremst að horfa á það núna hvernig við viljum sjá grunnþjónustu hér í landi og síðan það hvernig við viljum fara með skattpeninga almennings. Við erum að ræða tekjur og gjöld ríkisins, ræða hvaðan fjármagnið kemur og hvernig það er nýtt. Pólitísku línurnar liggja svo þarna. Við erum stundum býsna samsíða og stundum skörumst við. Hversu mikil eiga útgjöldin að vera, hversu háir eiga skattarnir að vera? Hvernig á að skipta þessum útgjöldum á milli málaflokka? Hvernig á að skipta sköttunum? Hver á að greiða hvað, hve mikið greiða heimilin og hvað greiða breiðu bökin?

Svo er það sá hluti umræðunnar sem situr allt of oft á hakanum að mínu mati, þ.e. hvernig við nýtum fjármagnið, ekki í hvaða málaflokka heldur einfaldlega hversu vel við hugsum þessa peninga sem við fáum m.a. frá skattborgurum þessa lands og sem tekjur af auðlindum þessara sömu skattborgara. Mér hefur að mörgu leyti þótt hauststjórnin, bæði sú fyrri og sú sem nú er að hefja sína vegferð, hafa lagt þyngri áherslu á sjálfa upphæðina en hvernig hún nýtist. Það er ekki ólíklegt að það sé vegna þess að hún þori ekki í hina pólitísku innbyrðis umræðu. Það er bara auðveldara að skrifa tékka. En þetta er ekki gott. Þetta er vont vegna þess að í stóra samhenginu þýðir það að við förum illa með skattpeninga almennings og fáum ekki þá þjónustu sem við viljum raunverulega fyrir samfélagið okkar, hvorki magnið né gæðin. Afleiðingin af þessu öllu er síðan sú að við horfðum upp á ósjálfbæran rekstur ríkissjóðs fyrir Covid og það er ekkert í kortunum sem bendir til annars en að haldið verði áfram á sömu braut af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Ég flutti fyrir réttum fimm árum jómfrúrræðu mína hér í þingsal, einmitt í fjárlagaumræðunni, og það voru sérstakar aðstæður. Kosningar höfðu verið í lok september og um miðjan desember voru stjórnarmyndunarviðræður, alls konar stjórnarmyndunarviðræður, í gangi. Fjárlögin sem þurfti að afgreiða fyrir áramót voru því samsuða, nokkurs konar samstarfsverkefni allra flokka á þingi. Það var stefnulítið plagg sem sagði eiginlega ekki aðra sögu en þá að það ætti að halda vélinni gangandi þar til ríkisstjórn yrði mynduð sem setti stefnuna. Svipað virðist vera upp á teningnum nú þegar samt er um að ræða fyrirséða framlengingu á samstarfi stjórnarflokkanna þriggja. Þetta er frekar stefnulítið plagg, þetta er kerfisplagg, sem er orð sem hefur verið notað hér í ræðustól í þessari umræðu. Það er ljóst að tveir mánuðir, tveir síðustu mánuðir, hafa verið nýttir heldur illa, svo ekki sé fastar að orði kveðið, enda sagði fjármálaráðherra sjálfur við kynningu á fjárlagafrumvarpinu að hann ætti von á því að ríkisstjórnin kæmi með tillögur til breytinga. Nýir ráðherrar í öllum ráðuneytum, ný ráðuneyti, sérstakar aðstæður, og hæstv. fjármálaráðherra gerði ráð fyrir því að allir myndu sýna því skilning að það þyrfti að stilla hlutina til. Þá þarf væntanlega líka að sýna því skilning að stór hluti starfsfólks Stjórnarráðsins, ráðuneytanna, þarf að færast til í starfi með tilheyrandi töfum og kostnaði sem er væntanlega ekki inni í þeim fjárlögum sem við ræðum nú.

Ég verð að segja að ég sé enga sérstaka ástæðu til að sýna því skilning að Alþingi ræði hér illa ígrunduð fjárlög þegar tæpur mánuður lifir af árinu. Sú staða sem hér er uppi er eingöngu til komin vegna pólitískra ákvarðana ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Þeir ákváðu haustkosningar. Þeir ákváðu að þeir þyrftu að nýta allt skjólið sem kosningaskandallinn í Norðvesturkjördæmi gaf þeim. Þeir voru ekki tilbúnari en svo, daginn sem það mál var klárað hér á Alþingi, að það virtist koma öllum ráðherrum í opna skjöldu hvaða ráðuneyti þeir fengu, nema formönnunum þremur. Þetta var þeirra ákvörðun. Það var líka þeirra ákvörðun að kasta til höndunum við kynningu á fyrirhuguðum breytingum á Stjórnarráðinu, á einstaka ráðuneytum, að fjöldi starfsfólks þessara sömu ráðuneyta fékk fréttirnar af umtalsverðum og ófyrirséðum breytingum á blaðamannafundi formannanna sunnudaginn 29. nóvember. Það er afleiðing þessara ákvarðana þessara þriggja formanna að við ræðum hér í mikilli tímapressu fjárlagafrumvarp sem er samt líklega ekki frumvarpið sem ríkisstjórnin vill, en það kemur þá í ljós þegar hún veit hvað það er sem hún vill.

Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir birti fyrir nokkru síðan mynd af kettinum sínum, honum Júrí. Við erum vinir, við Júrí, og þess vegna man ég þetta. Myndin var reyndar ekki af Júrí heldur af daglegri göngu hans. Hann var sem sagt kominn með rakningartæki um hálsinn og á myndinni sem tækið sendi frá sér sást að það sem Júrí var upptekinn við alla daga var ferð án fyrirheits. Ég hef hugsað töluvert um Júrí í tengslum við þessi fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hin síðari hefur ekki sömu afsökun fyrir stefnuráfandi fjárlögum núna og Alþingi hafði fyrir fimm árum. Vandamálið er heimatilbúið. Við erum hér að ræða skref fyrstu ríkisstjórnarinnar sem situr heilt kjörtímabil án þess að leiðrétta dagsetningu haustkosninga og færa þær fram að vori. Fjárlög eru grundvallarplagg í rekstri ríkisins og þau krefjast einfaldlega meiri tíma og meiri virðingar en ríkisstjórn Íslands sýnir þeim hér.

Herra forseti. Hv. þingmenn Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Guðbrandur Einarsson, hafa farið hér býsna vel yfir einstök atriði frumvarpsins í gær og í dag út frá sjónarhorni okkar í Viðreisn og ég geng út frá því að fleiri þingmenn muni kveðja sér hljóðs úr hópi Viðreisnar. Það sama hafa auðvitað þingmenn annarra flokka gert út frá áherslum sinna flokka. Ég ætla því að leyfa mér að fara eilítið aðra leið og drepa frekar á einstaka þætti sem hafa vakið athygli mína og mér finnst rétt að benda á, m.a. vegna þess að þar finnst mér ekki fara saman tal og mynd hjá stjórnarflokkunum.

Nú er það svo t.d. að einn ríkisstjórnarflokkanna, sá stærsti, er hinn meinti skattalækkunarflokkur. Það er staðreynd að efnahagshorfur hafa batnað frá framlagningu síðasta fjárlagafrumvarps og það hefur verið töluvert rætt hér. Samt er það svo að samkvæmt frumvarpinu eru þær aðgerðir sem boðað er til í skattamálum allar til hækkunar. Við erum þar að tala um margvísleg gjöld sem hækka á næsta ári um 2,5%. Slík hækkun á áfengisgjaldi á að skila nokkrum milljörðum króna í kassann á næsta ári, samtals á áfengisgjaldið að skila 20 milljörðum ríflega. Tóbaksgjaldið hækkar líka og mun síðan skila ríkissjóði 6 milljörðum. Lögð er til hækkun á olíugjaldi, kílómetragjaldi og sérstöku kílómetragjaldi um 2,5%, vörugjald af bensíni mun hækka og skila ríkissjóði tæpum 10 milljörðum á næsta ári. Síðan má nefna fyrirhugaða hækkun á gjaldi til Ríkisútvarpsins og hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra en þar hefur ekki enn verið staðið við að þeir fjármunir renni í það sem brýn þörf er á og það er uppbygging á hjúkrunarúrræðum. Ríkisstjórnin er sem sagt ekki að lækka skatta.

Mig langar í þessu samhengi líka að minna á hið eilífa stimpilgjald sem skilar um 5 milljörðum í kassann og veldur fjölda fólks töluverðum höfuðverk. Þetta er umtalsverð upphæð sem fólk þarf að greiða, t.d. af viðskiptum sínum, húsnæðiskaupum, og getur verið mikil byrði. Það hefur verið mikið talað um það, m.a. af einstaka stjórnarflokkum, að þetta gjald eigi að hverfa. Þess sjást engin merki. En ég ætla hér að upplýsa þingheim um það að Viðreisn mun leggja fram, enn og aftur, tillögu í þá átt. Reyndar hefur framlag ríkisstjórnarinnar í þessu máli verið niðurfelling stimpilgjalda af kaupum og sölu á skipum. Ég ætla að leyfa mér, eins ágætt og það er, að halda því fram að það sé kannski ekki það sem helst brennur á. Þessi ákvörðun snýst um forgangsröðun og hún snýst um sanngirni.

Þegar við tölum um heilbrigðismálin, frú forseti, er ljóst að gert er ráð fyrir auknu framlagi í þau mál og það er vel, það er nauðsynlegt. En það er lítið í kortunum enn þá sem sannfærir mig um að sú aukning muni nýtast eins og hún þarf að nýtast. Það hefur ekki verið þannig í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það hefur verið aukið í fjárlögin en þau virðast oftar en ekki fara í hít og þar sem staðan er slæm þá virðist hún jafnvel versna eftir því sem líður á stjórnartíð þessarar ríkisstjórnar. Talað er um ákveðnar úrbætur á Landspítalanum og auðvitað er það gríðarlega mikilvægt, og þessi hágæslurými sem á að opna til að draga úr álagi á gjörgæslurými Landspítalans eru algerlega nauðsynleg, endurhæfingarrýmin á Landakoti líka og farsóttardeild í Fossvogi, sem var reyndar lofað fyrr á þessu ári. Þetta eru hlutir sem þurfa að eiga sér stað sem fyrst. Staðreyndin er hins vegar sú að undirliggjandi vandi Landspítalans er slíkur að það þarf annars vegar að koma til hraustlegt framlag og það þarf að ríkja gegnsæi og það þarf að koma stuðningur til að það framlag nýtist eins og það þarf að gera.

Það sem sló mig í kaflanum um heilbrigðismálin var fyrst og fremst það að þar er ekkert um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Það sló mig vegna þess að þetta er það sem Alþingi hefur samþykkt og óskað eftir einróma. Það sló mig vegna þess að það er gríðarleg viðurkennd þörf á þessari þjónustu. Það sló mig vegna þess að við höfum úrræði, sálfræðingar eru til staðar, en í stað þess að beina fjármagni inn til Sjúkratrygginga til að þær geti samið við þessa aðila hefur fæti verið brugðið af hálfu ríkisstjórnarinnar fyrir þessa sömu starfsstétt með skilyrðum sem gera henni illmögulegt að sinna starfi sínu. Eitt þeirra, og það versta, er krafan um tveggja ára starfsreynslu á ríkisrekinni stofnun þegar vitað var að þau störf lágu ekki á lausu. Hún var reyndar dregin til baka rétt fyrir kosningar og vonandi til frambúðar.

Það sló mig líka að framlög til Sjúkratrygginga voru ekki aukin nægilega til þess að þar gæti þessi stofnun, fyrir hönd ríkissjóðs, samið í opnu og gegnsæju ferli við fagfólkið okkar í heilbrigðisþjónustu sem starfar utan ríkisrekinna heilbrigðisstofnana og tekið saman höndum við þetta fagfólk til að draga úr biðlistum sem eru að sliga allt of marga einstaklinga, of margar fjölskyldur og of mörg heimili. Síðan var framlag til geðheilbrigðismála hækkað tímabundið í eitt ár um 400 millj. kr. Það er eins með þetta og margt annað að þar situr eftir spurningin: Hver er ástæðan fyrir þessari tímabundnu aukningu? Erum við ekki öll meðvituð um það að hér þarf að gera betur og það þarf að gera það til lengri tíma litið?

Mig langar að fara næst yfir í samgöngumálin. Ég kom inn á það aðeins í andsvörum mínum áðan við hv. þm. Oddnýju Harðardóttur að það kemur fram að þar eru fjárheimildir til framkvæmda á vegakerfinu lækkaðar um rúmlega 7 milljarða vegna þess að tímabundnum verkefnum í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar, þá hinnar fyrri, er að ljúka. Það er ekki hægt að lesa annað út úr þessu en að ekki eigi að halda slíku átaki áfram þrátt fyrir að almennt sé viðurkennt að við erum enn mjög hart keyrð í þessum málum og innviðauppbyggingin í samgöngum hefur ekki náð sér á strik frá fjármálahruninu.

Síðan langar mig að nefna sérstaklega að þrátt fyrir að töluvert hafi verið rætt af hálfu einstakra ráðherra í tíð fyrri ríkisstjórnar um hina svokölluðu PPP-leið, sambland einkaframtaks og hins opinbera í uppbyggingu á nauðsynlegum vegaframkvæmdum, þá er það ekki neitt sem fjallað er um hér, þ.e. það er ekki fjallað um sameiginlegar fjárfestingar ríkis og einkaaðila í uppbyggingu innviða eða annars og þá spyr maður: Er ástæðan sú — af því að sannarlega er það ekki að það þurfi ekki spýta í uppbyggingu, það er ekki það að hér sé nægt fjármagn — að þar rekast stefnur hinna mismunandi flokka innan ríkisstjórnarinnar hver á annars horn og ekkert kemur út úr því? Ég kalla eftir fyrri stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum.

Við erum að tala um framlag til menntamála. Það er kannski tvennt sem mig langar að nefna sérstaklega. Það er í fyrsta lagi lækkun á framlagi vegna úrræðisins Nám er tækifæri. Það var vissulega ein af mótvægisaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins, en það er nú þannig að óháð þeim slæma gesti er nám tækifæri fyrir allt fólk. Það verður ekki horft fram hjá því að hér er hópur ungs fólks sem býr við verulega skert tækifæri þegar kemur að námi og það er ungt fatlað fólk. Mikið hefur verið kallað eftir því á síðustu árum — ekki síst þegar verið var að bæta fjármagni inn í kerfið af því að það þurfti einhverja snögga breytingu, einhver viðbrögð við neikvæðum áhrifum faraldursins — að horft væri til þessa hóps líka. Það hefur ekki verið gert. Þessi fjárlög svara á engan hátt kalli þeirra sem eru að biðja um að ungt fatlað fólk fái tækifæri til að efla færni sína og þekkingu eftir framhaldsskóla. Það er ekki verið að svara þessu kalli samtímans. Ef það er reyndin að þetta unga fatlaða fólk, eftir starfsbrautarnám í framhaldsskólum, eigi að drífa sig út á vinnumarkaðinn þá er menntamálaráðherra ekki að tala við aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar vegna þess að þau störf eru ekki í boði þrátt fyrir annað ákall. Ég ætla að nota þennan stól til að kalla eftir því að þarna verði komið til móts við þennan hóp vegna þess að ekki eingöngu skiptir þetta máli fyrir þessar fjölskyldur, fyrir þessa einstaklinga og fjölskyldur þeirra, heldur skiptir þetta máli fyrir okkur öll sem búum í þessu samfélagi vegna þess að þetta er eitt af því sem skilgreinir okkur sem samfélag, hvernig tækifæri við bjóðum þessum hópi.

Síðan langar mig í öðru lagi undir hatti mennta- og menningarmála að eyða nokkrum orðum í þessar sérkennilegu fjárveitingar til þróunar streymisveitu. Markmiðið virðist vera að veita aðgang að íslenskum kvikmyndaarfi þegar þessar myndir fást ekki geymdar eða sýndar annars staðar. Henni er ekki ætlað að vera í samkeppni við einhverja aðra aðila sem kunna að bjóða upp á íslenskt efni hverju sinni.

Frú forseti. Þessi saga hefur verið tuggin svo oft: Ríkisrekið batterí, sem er komið á laggirnar fyrir peninga skattgreiðenda, er ætlað eitthvert eitt tiltekið örverkefni og alls ekkert annað en er búið að hasla sér völl á hinum frjálsa markaði á örskotsstundu. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt vegna þess að stofnkostnaður við svona framkvæmdir er svo mikill að hver einasta rekstrarmanneskja sem tæki þetta að sér myndi hugsa nákvæmlega eins. En það sem er óeðlilegt er að fara þessa leið þegar við eigum hér annars vegar einkareknar streymisveitur sem geta auðveldlega tekið þetta verkefni að sér með samningum fyrir brotabrot af fjárhæðinni, geri ég ráð fyrir, og hins vegar eigum við hér heilt Ríkisútvarp. Ef markmiðið er fyrst og fremst að koma kvikmyndaarfinum á stafrænt form og varðveita hann þá eru ýmsar aðrar leiðir til. Ríkisvaldið þarf ekki að stofna og reka ríkisveitu. Það má bara velta því fyrir sér hver ástæðan sé fyrir því að fara þessa leið. Getur verið hreinlega að einkareknar streymisveitur séu ekki nægilega fínar til að sinna kvikmyndaarfinum íslenska, íslenskri tungu? Ég neita að trúa því, frú forseti. Ég held að þetta hljóti að vera vanhugsað og ég vænti þess að Alþingi muni stíga hér inn í. Það er ekki bara að af þessu hljótist kostnaður fyrir ríkissjóð, þetta er óþarfa samkeppni fyrir einkafyrirtæki. Þetta er samkeppni um sérhæft starfsfólk, sem vex ekki á trjám, skilst mér. Það er gríðarleg eftirspurn eftir hugbúnaðar- og tæknifólki og ég fullyrði að kröftum þeirra sé betur varið í önnur og uppbyggilegri verkefni en að ríkið búi sér til þetta pláss á markaði. Að því sögðu er sjálfsagt mál og mikilvægt að ríkið verndi menningararfinn með því að safna réttindum og koma efni yfir á stafrænt form en það þarf ekki að gera það sjálft.

Undir málefnum sveitarstjórna, öðrum málefnasviðum, kemur fram að framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga aukist um 2,5 milljarða vegna breytinga á lögbundnum framlögum sem hreyfast auðvitað í takt við skatttekjur. Svo er 1,1 milljarður til að mæta kostnaði vegna nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu barna. Mig langar að nota tækifærið og vekja sérstaklega athygli, sem þingmaður Reykvíkinga, á stöðu skattgreiðenda í Reykjavík. Ég velti því fyrir mér hvernig ríkisstjórnin hyggst gæta hagsmuna þeirra. Í stjórnarsáttmálanum leggur ríkisstjórnin nefnilega mikla áherslu á samstarf við sveitarfélögin og mörg helstu verkefni þar á að vinna í slíku samstarfi. Það á að tryggja loftslagsmarkmiðin, jafna tækifæri barna til að stunda tómstundastarf og vinna stefnu í þjónustu við eldra fólk, svo fátt eitt sé talið og síðan taka húsnæðismarkaðinn föstum tökum, ef ég man orðalagið rétt. Nú er það svo að gott samfélag sinnir félagslegri þjónustu við þá sem þurfa á því að halda; börn, unglinga, fatlað fólk, aldraða o.fl. Það gera Reykvíkingar sannarlega, reykvískir skattgreiðendur, og gott betur, því að þegar kemur að þessum tilteknu málum; félagslegri þjónustu, uppbyggingu á félagslegu húsnæði og öðru slíku, draga þeir vagninn fyrir nágranna sína á höfuðborgarsvæðinu, fyrir nágranna sína í Garðabæ, í Hafnarfirði, í Kópavogi, í Mosfellsbæ, á Seltjarnarnesi. Afleiðingin af því er sú að Reykjavík er eina sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem innheimtir hámarksútsvar. Með öðrum orðum: Reykvíkingar axla meiri ábyrgð á félagsþjónustu en nágrannar þeirra á Stór-Reykjavíkursvæðinu og greiða fyrir vikið hærri skatta.

Þetta er gott að hafa í huga þegar rifjað er upp að á síðasta kjörtímabili breytti ríkisstjórnin, stjórnvöld, meiri hlutinn, lögum um tekjustofna sveitarfélaga þannig að hægt væri að skerða framlög jöfnunarsjóðs til Reykjavíkur. Og þá spyr maður: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að gæta hagsmuna skattgreiðenda í Reykjavík? Það væri óskandi að þess sæi stað í stjórnarsáttmála eða fjárlögum. Það er ekki öll nótt úti enn vegna þess að það þarf töluvert sterkan vilja til að sjá ekki misrétti í því að viðbótarskattbyrði sé á þennan hátt velt af íbúum nágrannasveitarfélaga yfir á borgarbúa án þess ríkisstjórnin, stjórnarflokkarnir, sjái og komi til móts við það og a.m.k. bæti ekki á með þessum ólögum um jöfnunarsjóðinn. Það verður áhugavert að sjá hvort skattgreiðendur í Reykjavík eigi sér talsmenn í ríkisstjórninni sem nú hefur hafið störf samkvæmt nýjum stjórnarsáttmála. Það var nefnilega ekki beinlínis þannig í tíð hennar í hinu fyrra lífi.

Ég held, frú forseti, að ég geymi umræðuna um loftslagsmál, ég ætla að gera henni betur skil í sér ræðu síðar í kvöld eða eftir atvikum annan dag. En mig langar rétt í lokin að gera eina undantekningu á þeirri reglu minni sem ég hef haft hér um að vera ekki að óska eftir sérstöku viðbótarfjármagni í sérstaklega tilgreinda flokka eins og auðvelt er að gera. Mig langar til að tala máli Samtakanna '78. Samtökin '78 eru regnhlífarsamtök fyrir hinsegin fólk en þau eru meira en það, þau eru mannréttindasamtök, þau hafa dregið vagninn í ótrúlega öflugri mannréttindabaráttu sem fjölmargir njóta góðs af vegna þess að þau hafa sett viðmið, þau hafa tamið sér vinnubrögð, þau hafa komið fram með þeim hætti að þetta hefur skipt verulegu máli fyrir þróun íslensks samfélags til hins góða. Samtökin '78 voru á fjárlögum árin 2019 og 2020 en eru ekki á fjárlögum núna. Ég þekki það og veit hversu gríðarleg aukning hefur verið í beiðnum um ráðgjöf og fræðslu af hálfu samtakanna. Það er eiginlega þannig að þau eru sprungin og þau eru sprungin á sama tíma og við horfum því miður fram á aukningu í hatursorðræðu ýmiss konar og hatursglæpum í garð hinsegin fólks, ekki bara utan landsteinanna. Samtökin hafa sýnt að þau geta unnið gott starf fyrir tiltölulega lágar fjárhæðir. Þau skipta máli fyrir íslenskt samfélag og ég á þá ósk mjög heita að Samtökin '78 eigi sér sinn fasta fjárlagalið eftir að frumvarpið kemur til baka úr vinnslu hv. fjárlaganefndar. Það er mikilvægt af svo mörgum ástæðum. Ég ætla, frú forseti, að láta staðar numið í bili en bið að sama skapi um að vera sett aftur á mælendaskrá.