152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[17:11]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Nú kemur hv. þingmaður að tómum kofanum hjá mér því að ég er búinn að gleyma öllum tölunum. En málið er að þetta hefur verið rannsakað með tengiltvinnbíla. Það hefur verið rannsakað hvernig íslenskir bíleigendur nota tengiltvinnbíla og niðurstaðan varð sú að stór hluti ferða byrjar með rafgeyminn tóman þannig að þessir bílar eru mjög oft að keyra allt of mikið á bensíni. Ef við horfum síðan á það hvernig þessir bílar eru notaðir sem bílaleigubílar þá hverfa einmitt jákvæðu kostir rafhlöðunnar við það hvernig meðalferðamaðurinn notar bílinn, keyrir mikið á hverjum degi og er kannski ekki í aðstöðu til að stinga í samband að kvöldi. Þetta átti alltaf að vera millibilistækni og ég held að við séum komin á þann tímapunkt að við þurfum að stíga næsta skref. En það sem við þurfum að gera er að hjálpa (Forseti hringir.) fólkinu sem vill losna við mengandi drusluna sína og færa sig yfir í einhvern annan farkost, hvort sem það er hreinn rafbíll (Forseti hringir.) eða borgarlína eða hvað það er sem við þurfum til að bæta ástandið. Það skiptir mjög miklu máli (Forseti hringir.) að gera einmitt þeim tekjuminni kleift að stíga það skref svo að græna umbyltingin sé ekki bara á færi hinna ríku.

(Forseti (DME): Forseti minnir hv. þingmenn á að gæta að tímamörkum.)