152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[17:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og get ekki annað en verið innilega sammála honum. Ég held að þetta valdi ekki bara garnaflækju heldur líka heilahristingi. Það besta sem við gerðum væri eiginlega að skylda hvern þann ráðherra sem sinnir þessum málaflokki til að keyra þennan veg til vinnu. Þá yrði eitthvað gert á stundinni, menn yrðu ekki lengi að koma veginum í lag. Það eru svona kaflar úti um allt, hrikalega lélegir kaflar, og maður skilur ekki að það skuli ekki vera gerð úttekt á veginum. Þetta er ekki bara um umferðarmál heldur líka heilbrigðismál vegna tjónsins sem verður af veginum. Bílar þeytast út af og tjón verður á bílunum og fólk slasast auk þess sem maður veit ekki hvaða afleiðingar það hefur fyrir börn að þurfa fara slíka vegi, eins og ég segi, tíu sinnum í viku. Þetta segir okkur að við eigum að kortleggja svona vegi en ég hef enga trú á að ríkisstjórnin geri það, taki þá út. Því miður.