152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[17:43]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar aðeins að rifja upp með hv. þingmanni þetta furðufrumvarp um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir sem var samþykkt hér á 150. löggjafarþingi, ekki með atkvæði mínu og ekki heldur með atkvæði hv. þm. Bergþórs Ólasonar ef ég man rétt. Það frumvarp var ekki lagt fram vegna þess að ríkið gæti ekki lagt vegi, það var ekki lagt fram vegna þess að ríkið gæti ekki byggt brýr eða grafið göng. Það frumvarp var bara lagt fram og það stóð hreinlega í greinargerð, til að komast fram hjá reglum laga um opinber fjármál með því að taka út fyrir sviga stórar framkvæmdir sem annars myndu ekki líta nógu vel út þegar kæmi að skuldaviðmiðum ríkissjóðs. Það þarf ekkert einhverja stórsókn í PPP-framkvæmdum til að ríkið geti grafið göng, lagt vegi eða byggt brýr. Ríki þarf bara að ákveða að gera það. Eina ástæðan fyrir því að það þarf að leggja sérstakan skatt á fólk sem fer um þessi tilteknu samgöngumannvirki er sú að ríkisstjórnin nær ekki saman um það að beita ríkissjóði í þessar framkvæmdir. Og hræða ekki sporin þegar fyrirmyndin í þessu samvinnuverkefnafrumvarpi var Vaðlaheiðargöng? Það var bent á þau sem sérstaklega vel heppnað dæmi um svona framkvæmdir. Það er einmitt talað um Vaðlaheiðargöng í þessu fjárlagafrumvarpi. Félagið gat ekki endurgreitt ríkinu skuld sína við ríkissjóð. Sú PPP-framkvæmd er bara „fallítt“, ríkið þarf að taka hana yfir. En í stjórnarsáttmálanum er engu að síður talað um að halda áfram á Vaðlaheiðarbrautinni, búa jafnvel til opinbert félag um jarðgangagerð, sem hljómar eins og enn ein uppgjöfin fyrir því að ríkið sinni sínu hlutverki og hætti að búa til einhverjar hjáleiðir.