152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[17:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að kjarnaatriðið verði alltaf að vera arðsemi framkvæmdanna. Þótt við hv. þingmaður séum eflaust á einhverjum stigum ósammála um mikilvægi hugtaksins arðsemi af fjárfestingum þá held ég engu að síður að samgönguverkefni séu bara þeirrar gerðar í eðli sínu að þau feli í sér umtalsverða arðsemi, jafnvel þó að ekki sé hægt að reikna hana upp á tvo aukastafi. Horfum t.d. til áhrifanna á Siglufjörð af göngunum sem þar voru gerð. Við erum að horfa á þetta gerast núna varðandi höfuðborgarsáttmálann. Þar er í rauninni verið að ná utan um ákveðinn framkvæmdapakka. Kannski er það lausnin hvað framkvæmdir á landsbyggðinni varðar en það á ekki að skipta máli. Allar þessar skuldir þarf að greiða á endanum og það er alveg örugglega þannig að þó að vaxtastig sé lágt um þessar mundir (Forseti hringir.) þá munu einkaaðilar ekki trompa aðgang ríkissjóðs að fjármagni hvað vaxtakjör og annað slíkt varðar. Það blasir við.