152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:48]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er rétt hjá hv. þingmanni að 69. gr. segir til um það hvernig lífeyrir á að hækka samkvæmt lögum, hann á að hækka samkvæmt því sem er hærra, hvort sem það er verðlagsþróun eða launaþróun. Sögulega séð hefur hann haldið í við verðlagsþróun og rúmlega það en ekki launaþróun, langt í frá. Þegar þetta er lagt saman þá munar þarna einum 50–60% núorðið. Á síðasta kjörtímabili þá varð í rauninni þessi hópur sem fær lífeyri samkvæmt almannatryggingum af einu ári af launahækkunum miðað við alla aðra út af þessu. Við tölum um að fara í þetta grunntryggingakerfi, ekki sem sagt lágmarkstryggingakerfi sem er trygging fyrir grunnframfærslu. Það býr til þetta gólf sem allir aðrir geta byggt ofan á. En það er dálítill hugmyndafræðilegur árekstur (Forseti hringir.) við ákveðna flokka hérna sem trúa ekki á prógressífa skatta (Forseti hringir.) þrátt fyrir að þeir séu heilbrigðastir fyrir samfélög. Þetta verður áhugavert.