152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[18:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég hjó einmitt eftir því í kynningu hæstv. fjármálaráðherra að næstum því allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar áttu að hafa verið greindar út frá kynjasjónarmiðum. Ég man eftir því þegar ég minntist á það í fjárlaganefnd þegar Covid-ráðstafanir byrjuðu af hverju þær væru ekki kynjagreindar eins og lögin kveða á um. Það urðu mjög áhugaverð viðbrögð við því, skulum við segja, allir mjög sjokkeraðir, eðlilega, af því að það vantaði. Jú, það er margt í þessu frumvarpi eins og hv. þingmaður vísaði í sem segir bara svart á hvítu af hverju þetta er vandamál. Eitt af því sem ég rak augun í er það sem segir hér um skattalækkanir sem áttu að hafa meiri áhrif fyrir lægri tekjuhópa, með leyfi forseta:

„Vitað er að þær skattalækkanir sem komu til vegna tekjuskattsbreytinga árið 2020 komu að 52% í hlut kvenna“ — sem segir okkur bókstaflega að konur eru lægra launaðar en karlmenn, það er ekkert flókið við þetta — „en áhrifin af breytingum 2021 munu verða ljós í kjölfar álagningar ríkisskattstjóra á tekjur 2021.“

Þarna er það svart á hvítu hvar vandinn liggur. Það hvað er hægt að gera við honum, hvernig hann er mismunandi á milli starfsstétta og að það séu heilar starfsstéttir sem eru lægra launaðar, sem er eitthvað sem t.d. jafnlaunavottunin tekur ekki á af því að hún tekur bara á jöfnum launum innan starfsstétta, ekki á milli starfsstétta sérstaklega, verður mjög áhugavert að sjá. Og nei, svarið er nei. Það hefur ekki verið skoðað mjög mikið í nefndinni.