152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[19:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, það var margt í henni að finna sem ég er fullkomlega sammála. Mig langaði að ræða við hv. þingmann um anga af þessari stöðu sem er sú að við erum að fá fjárlögin svona seint inn og erum að vinna þau eiginlega blindandi í ljósi þess að það er búið að boða fullt af einhverjum breytingum sem við vitum ekki hverjar eru. Nú er búið að senda út umsagnarbeiðnir og svo sem búið að gefa í skyn að helst vilji meiri hlutinn eiginlega ekki fá neina gesti, en hvað finnst hv. þingmanni um það að bjóða upp á þetta frumvarp og segja að það verði töluverðar breytingar á því, gefa ekki sérstaklega í skyn hverjar þær verða en ætla svo umsagnaraðilum að skrifa umsagnir um algerlega úrelt plagg? Ég spyr bara: Hvers konar virðingarleysi er það gagnvart fólkinu sem á að rýna þetta plagg og segja okkur hvað þeim finnst og koma því á framfæri hvernig það snertir þau og þeirra málefnasvið ef það á síðan að snúa þessu öllu við með einhverjum breytingartillögum til þess að koma sýn ríkisstjórnarinnar almennilega á framfæri? Væri kannski ráð að gefa út einhvers konar tilkynningu um hvaða breytingar verða? Eða heldur hv. þingmaður eins og ég að mögulega liggi þær ekki enn þá alveg fyrir og það eigi bara eftir að ákveða það eins og svo margt annað?