152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[20:34]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við gætum svo sem staðið hér, held ég, í heilan mánuð og rætt þetta fjárlagafrumvarp sem hefur verið borið undir okkur. En af einhverjum ástæðum þá eru svör stjórnarliða mikið á þann veg að þetta séu nú ekki réttar tölur, það eigi eftir að skoða þetta betur, sé jafnvel ekki búið að uppfæra og annað og maður kemst ekki hjá því að velta aðeins fyrir sér hvort það sé hreinlega verið að hafa okkur að fíflum, hvort það sé bara verið að reyna að hafa ofan af fyrir okkur vegna þess að þetta er mjög mikilvæg umræða. Það er mjög mikilvægt að við fáum raunverulega áætlun ríkisstjórnarinnar til að ræða. Það sem er áhugavert t.d. að sjá í þessu fjárlagafrumvarpi eru alls konar aðhaldskröfur hér og þar gagnvart ýmsum ráðuneytum og stofnunum, aðhaldskröfur sem samkvæmt frumvarpinu virðast ekkert vera útfærðar. Það er eins og ráðuneytum og stofnunum og öllum „beisiklí“, afsakið, sé gert að finna út úr því hvernig þau eyði aðeins minni peningum. Við vitum náttúrlega að þannig virka hlutirnir ekki í raunveruleikanum. Flestar stofnanir kvarta undan fjárskorti. Ég veit ekki til þess að það séu margar stofnanir sem vilja minni pening eða hafa mikið afgangsfé. En spurningin sem ég vildi bera upp er hvort þingmaðurinn telji í rauninni mark takandi á þessu frumvarpi sem við erum að ræða hérna.