152. löggjafarþing — 4. fundur,  3. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[20:39]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég myndi kannski vilja bregðast við þessu almennt. Ég er svolítið þeirrar skoðunar að öll þessi atburðarás sem við erum búin að verða vitni að undanfarnar vikur, það sem gerist hér til að mynda á dögunum þegar verið er að huga að nefndaskipan og nefndastörfum og annað, gefi manni því miður svolítið vonda tilfinningu fyrir því að sterkur meiri hluti sé mögulega að fara að traðka svolítið á lýðræðislegum rétti minni hlutans sem er ekki gott, bara alls ekki gott. Ég minni enn og aftur á það að þingið hefur auðvitað mikið aðhaldshlutverk. Stjórnarandstaða er ekki síður mikilvægt hlutverk heldur en að vera í stjórn. En ég var nú reyndar að vona, vegna starfa undirbúningskjörbréfanefndarinnar, að þetta yrði með þeim hætti sem við sáum þar. Þar fannst mér flokkarnir vinna ansi vel saman þrátt fyrir að það hafi skilið svolítið á milli alveg í blárestina, þannig að við skulum sjá hverju fram vindur.