152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:29]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Að koma hingað inn sem nýr þingmaður er mikill lærdómur og að koma hingað við þær aðstæður sem nú eru uppi er, held ég, bara mjög sérstakt. Við erum núna rétt fyrir jól að reyna að ná utan um það á nokkrum dögum hvernig við ætlum að haga lífi heillar þjóðar og mér finnst það mjög sérstakt, svo ekki sé nú sterkar tekið til orða. Við séum að höndla með tilverugrundvöll fólks og velta fyrir okkur einhverjum þúsundum milljarða og þetta á bara að gera svona með annarri hendinni á síðustu metrunum. Ég næ ekki alveg utan um þetta. Ég mun sitja sem áheyrnarfulltrúi í fjárlaganefnd og mun þurfa að hafa mig allan við til að skilja og skilgreina hvað eigi sér stað. Manni skilst varðandi þetta plagg sem við erum að þrátta um núna og fara í gegnum að niðurstaðan verði einhver önnur en kemur fram í því af því að ráðherrar, sem urðu til allt í einu og ráðuneyti sem urðu til allt í einu og enginn vissi um nema þessi þrjú sem á toppnum sitja, eiga eftir að leggja fram óskalista sína sem gætu orðið verulegir.

Virðulegur forseti. Ég næ því ekki að við séum í slíkum leik þegar við erum að horfa á fjárlög sem eiga að skila 170 milljörðum í mínus og forsætisráðherra lætur hafa eftir sér í fjölmiðlum að sá kostnaður sem til fellur vegna þessara breytinga sé óljós, þau viti þetta ekki. Er þessi kostnaður upp á tugi milljóna eða er hann upp á hundruð milljóna? Miðað við það sem við höfum heyrt hér í morgun og miðað við þá þörf sem er til staðar við að hjálpa fólki við ýmiss konar aðstæður, þá skilur maður ekki að það sé verið að ráðast í slíkar breytingar á þessum tímapunkti. Ég bara næ því ekki. Er það einhver ráðdeild að fara að eyða peningum í slíka hluti núna þegar það er vitað að það er fullt af fólki í neyð sem fær ekki stuðning og þá þjónustu sem því ber í raun og veru? Við heyrum það frá hjálparstofnunum núna að þær hafa ekki getað aukið í. Það er sama upphæð á bréfinu sem fólk fær til að versla í Bónus en vöruverð hefur hækkað þannig að þú færð kannski þrjá fjórðu úr lærinu núna sem þú gast keypt að fullu fyrir síðustu jól. Mér finnst það skjóta skökku við að við séum í desember að velta slíkum hlutum fyrir okkur. Ég næ því bara ekki.

Ég hef verið að reyna að skilja hvernig framsetningin er í þessu fjárlagafrumvarpi og mér finnst eins og allt sé skrúfað upp í topp tekjumegin og reynt að stíga á útgjöldin eins og hægt er. Forsendur á tekjuhliðinni eru þannig að loðnuvertíðin á að ganga upp. Við ætlum að veiða þessi 700.000 tonn, held ég að þau séu, sem gert er ráð fyrir. En við heyrum núna að það er bara ekkert auðvelt að finna loðnuna og heldur ekkert auðvelt að veiða hana þannig að við vitum ekki hvort þetta stenst. Þá er líka verið að gera ráð fyrir því að ferðamannaiðnaðurinn verði bara í blússi á næsta ári, 1,4 milljónir ferðamanna á næsta ári. Þeir eru væntanlega 700.000 á þessu ári og voru 400.000 í fyrra. Það á að tvöfalda fjöldann á næsta ári og leggja það til grundvallar í tekjum þjóðarinnar á næsta ári. Mér finnst þetta sérstakt. Síðan er spáð verulegum hagvexti sem getur kannski verið raunhæfur en þeim sem leggja fram spár ber ekkert saman. AGS gerir ráð fyrir 4,1% hagvexti á sama tíma og Seðlabankinn segir 5,3. Meðaltal þessara hagvaxtarspáa sem liggja fyrir er 4,9%. Hvað er rétt? Á að taka þá hæstu eða á að taka þá neðstu eða á að taka meðaltalið? En það er greinilega verið að velja þá bestu. Hvaða þýðingu hefur það ef spá AGS rætist og að hagvöxtur verður bara 4,1%? Við þurfum að sjá þessar sviðsmyndir, hvað geti gerst. Verða tekjurnar eins og þær eru settar fram í þessu frumvarpi? Það eru margar spurningar.

Það er kominn listi með umsagnaraðilum sem telur rúmlega 30 aðila og á hann mun væntanlega bætast einhver fjöldi. Það er búið að leggja til að kalla til a.m.k. þrjá eða fjóra til viðbótar á listanum sem fyrir liggur, þannig að ég held að fjárlaganefnd muni sitja sveitt á næstu vikum við að reyna ná utan um þetta til að hægt verði að fara í 2. umr. fjárlaga fyrir jól.

Það er líka ýmislegt í þessu frumvarpi sem vekur athygli mína sem þingmaður Suðurkjördæmis. Við heyrðum það hér í upphafi að það kom áskorun frá Sveitarfélaginu Hornafirði um byggingu hjúkrunarheimilis og það er ekkert að sjá í þessu fjárlagafrumvarpi að verið sé að velta því eitthvað fyrir sér. Þegar ég reyni að lesa út úr þessu þá sé ég að það er gert ráð fyrir 1,5 milljörðum í að klára byggingu hjúkrunarheimilis í Árborg sem er nú risin og verður hægt að klára. Síðan er horft til þess að í Stykkishólmi eigi að byggja 28 rými. Ég sé ekki í fjárlagafrumvarpinu að það sé gert ráð fyrir byggingu hjúkrunarheimilis á Suðurnesjum. Kannski er það að finna einhvers staðar, ég bara kann ekki að lesa út úr því, en mér þætti það skrýtið eftir allt sem á undan er gengið, við erum búin að vera í rúm tvö ár að berjast við ráðuneytið að koma þessu í gang eftir að hafa skrifað undir samning í febrúar 2019, að sjá ekkert um það í fjárlagafrumvarpinu.

Landspítalinn er að drukkna, hann og sjúkrastofnanir eru fullar af veiku fólki sem gæti verið í annars konar þjónustu, þar með talið á hjúkrunarheimilum. Ég skil ekki að það sé ekki verið að byggja ódýrari úrræði heldur en þau að halda fólki veiku á spítölum þegar það gæti verið í annars konar umönnun. Það er mjög erfitt að ná utan um það hvers vegna verið er að vinna á þennan hátt.

Það vekur líka athygli mína, hafandi verið að berjast fyrir því að að ný heilsugæslustöð verði sett á laggirnar á Suðurnesjum þar sem búa 30.000 manns og það er bara ein heilsugæslustöð — það eru 4.000 manns sem keyra Reykjanesbrautina til að leita læknis í Reykjavík — að verið sé að áætla að 100 milljónir fari í undirbúning á heilsugæslu sem barist hefur verið fyrir í mörg ár. 100 milljónir. Þetta er bara dropi í hafið. Það kostar um milljarð að byggja leikskóla. Ég átta mig ekki á því hvernig stendur á því að ekki sé verið að drífa í uppbyggingu þessara úrræða til að létta álaginu á sjúkrastofnunum. Ég næ ekki utan um þetta.

Í Suðurnesjabæ búa 3.700 manns. Þar er engin aðstaða. Það er engin heilbrigðisþjónusta í sveitarfélaginu Suðurnesjabæ.