152. löggjafarþing — 5. fundur,  4. des. 2021.

fjárlög 2022.

1. mál
[11:54]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, í því tilfelli sem ég var að ræða var verið að taka eitt verkefni úr einu ráðuneyti og færa yfir í annað og kostnaðarmatið á þeim flutningi var 200 millj. kr. Það þurfti að fjölga þarna einhverjum starfsmönnum af því að það var vilji stjórnarinnar að efla jafnréttismálin, sem er virðingarvert. 70 millj. kr. var bara grófa fjárhagsáætlunin á því að skipta þessu upp. Það var sem sagt ekki verið að fjölga ráðherrum.

Af því að hv. þingmaður nefndi að forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti og sveitarstjórnarráðuneyti væru kannski einu ráðuneytin sem ekki færu á flot í þessari uppskiptingu sem við horfum fram á, sem er einhver mesta uppskipting á Stjórnarráði Íslands í lýðveldissögunni, við skulum halda því til haga, óundirbúin aðgerð án yfirsýnar, þá er það ekki svo með sveitarstjórnarráðuneytið. Þar er verið að byggja upp nýtt innviðaráðuneyti sem tekur skipulagsmálin öll úr umhverfisráðuneytinu, húsnæðismálin úr félagsmálaráðuneytinu, þannig að við getum rétt ímyndað okkur hvað það er mikil uppskipting að fara að eiga sér stað bara í því ráðuneyti. Þar þarf að fjölga starfsfólki umtalsvert o.s.frv., fyrir utan það að ef við horfum t.d. á málaflokkinn menntamál má ætla að í menntamálaráðuneytinu sé mikil samnýting á starfsfólki þvert á skólastig þannig að hægt er að nýta sama starfsmanninn á nokkrum sviðum. Nú er hins vegar verið að taka menntamálin og dreifa þeim á a.m.k. þrjú ráðuneyti. Þá sér maður alveg að varla er verið að samnýta ákveðna starfsmenn milli skólastiga heldur þvert á móti. Og ríkisstjórnin hefur í rauninni alveg viðurkennt að það muni þurfa að fara í töluverða fjölgun á starfsfólki í Stjórnarráðinu. Og þeir sem gerst þekkja til segja að líklega muni 200 af 700 starfsmönnum Stjórnarráðsins verða fluttir til í starfi.