152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing fráfarandi umhverfisráðherra.

[13:57]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég hlýt að koma hérna upp til að taka undir með kollegum mínum. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir fór ágætlega yfir þetta þegar kom að öllum þessum litlu styrkjum bara úti um allt korteri fyrir kosningar. Það voru mörg félagasamtök sem fengu styrki rétt fyrir kosningar. Það var allt í einu hægt að finna húsnæði fyrir Listaháskóla Íslands, bara korteri fyrir kosningar og það var ýmislegt ... (Gripið fram í.) — Já, ókei. Það var ýmislegt dregið upp úr hattinum rétt fyrir kosningar. Nú er ég ekki að segja að þetta hafi ekki verið góð verkefni, flest þessara verkefna voru verkefni sem ég hefði stutt heils hugar. En það hlýtur að þykja furðulegt að þetta sé í lagi og leyfilegt fyrir ráðherra að láta svona í kosningabaráttu sinni, að geta tekið bara upp eitthvert skúffufé og hent því hingað og þangað til þess að vinna sér atkvæði. Þannig að ég tek heils hugar undir þá beiðni um að fá lista yfir útgjöld ráðherra fyrir kosningar. Ég held að það sé mjög mikilvægt og ég skora á forseta að bregðast við þeirri beiðni og láta okkur vita hvort þetta sé eitthvað sem hann hyggst aðstoða við og styðja stjórnarandstöðuna í að fá.