152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[14:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2022. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á allmörgum lögum í samræmi við forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2022. Efnisatriði þess eru af margvíslegum toga og hafa bæði tekju- og gjaldaáhrif á frumvarpið. Ég mun fjalla nokkuð ítarlega um þau atriði sem mestu máli skipta en sú yfirferð er ekki nauðsynlega í sömu röð og viðkomandi efnisgreinar frumvarpsins.

Í fyrsta lagi fjalla ég um verðlagsuppfærslu krónutöluskatta og gjalda. Í frumvarpinu eru tillögur um 2,5% hækkun á svokölluðum krónutölusköttum í samræmi við venju en undanfarin ár hefur ríkisstjórnin miðað við að þessir krónutöluskattar og gjöld hækkuðu ekki umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans. Reyndar hefur það komið fyrir á umliðnum árum að við höfum tekið ákvörðun um að færa ekki upp viðkomandi skatta og gjöld en að þessu sinni erum við að fylgja þeirri venju sem hefur verið undanfarin ár að leggja þetta af mörkum til að halda aftur af verðbólgu en þess má geta að áætluð 12 mánaða breyting á vísitölu neysluverðs yfir yfirstandandi ár er 4% samkvæmt þjóðhagsspá Hagstofunnar. Hins vegar er gert ráð fyrir að hækkunin sé ekki meiri en nemur þessu verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Hér er um að ræða kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt bensíngjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, bifreiðagjald og gjald af áfengi og tóbaki.

Gert er ráð fyrir að þessi hækkun skili ríkissjóði um 1,7 milljörðum kr. á ári að meðtöldum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Áhrifin á vísitölu neysluverðs eru áætluð 0,08% og er þá ekki horft til hækkunar á útvarpsgjaldi og gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra en þau gjöld hafa ekki áhrif á vísitölu neysluverðs.

Í öðru lagi um þetta síðastnefnda gjald, þ.e. gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjaldið: Hér er lögð til 2,5% hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra og samkvæmt því verður gjaldið 12.334 kr. á hvern gjaldanda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022 vegna tekna ársins 2021. Áætlað er að þessi hækkun skili um 70 millj. kr. í viðbótartekjur á ári.

Jafnframt er gert ráð fyrir að sérstakt gjald vegna Ríkisútvarpsins verði hækkað úr 18.300 kr. í 18.800 kr. í takt við verðlagsbreytingar frumvarpsins. Viðbótartekjur af þeirri hækkun nema um 120 millj. kr. árlega.

Næst er það nýtt viðmið við uppfærslu skattleysis- og þrepamarka í tekjuskatti einstaklinga. Í frumvarpinu er lagt til að við árlega uppfærslu skattleysis- og þrepamarka verði miðað við þróun vísitölu neysluverðs að viðbættum 1% framleiðnivexti á ári. Gert er ráð fyrir að mat á framleiðnivexti til lengdar verði tekið til endurskoðunar á fimm ára fresti og bætt við vísitölu neysluverðs við uppfærslu hvers árs. Með þessu viðmiði verður uppfærsla skattleysis- og þrepamarka gagnsæ og skiljanleg. Sjálfvirk sveiflujöfnun verður innbyggð í skattkerfið þar sem skattbyrðin lækkar þegar launahækkanir eru lægri en samtala verðbólgu og langtímaframleiðnivaxtar og öfugt, þegar þær eru umfram langtímaframleiðnivöxt. Þá er einnig komið í veg fyrir að mismikil hækkun skattleysis- og þrepamarka leiði til þess að hlutfallsleg skattbyrði einstaklinga í neðri hluta tekjudreifingarinnar hækki með tímanum án þess að það hafi verið sérstaklega ákveðið. Áætlað er að tekjuskattur muni lækka um 2,3 milljarða á næsta ári vegna upptöku framleiðniviðmiðs við uppfærslu skattleysis- og þrepamarka ef miðað er við 1% framleiðnivöxt.

Næst eru það barnabætur. Hér er lögð til hækkun á fjárhæðar- og skerðingarmörkum tekna vegna barnabóta sem koma til framkvæmda við ákvörðun barnabóta í fyrirframgreiðslu og við álagningu opinberra gjalda á árinu 2022. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að neðri skerðingarmörk tekjustofns barnabóta hækki um 8%. Hjá einstæðum foreldrum hækka mörkin þá úr 4,2 milljónum á ársgrundvelli í 4,5 milljónir, eða ef við horfum á þetta á mánaðarlegum grundvelli þá hækka neðri skerðingarmörkin úr 325.000 kr. á mánuði í 379.000 kr. Það þýðir að fyrir einstætt foreldri sem hefur allar sínar tekjur af launavinnu og greiðir 4% skylduiðgjald í lífeyrissjóð er engin skerðing á barnabótum upp að 395.000 kr. Fyrir sambúðarfólk hækka neðri skerðingarmörk tekjustofns barnabóta úr 8,4 millj. kr. á ársgrundvelli í 9,1 milljón og ef við horfum á þetta sama á mánaðarlegum grundvelli er það hækkun úr 702.000 kr. á mánuði í 758.000 kr. Það þýðir að fyrir foreldra í sambúð, sem hafa allar sínar tekjur af launavinnu og greiða 4% skylduiðgjald í lífeyrissjóð, er engin skerðing á barnabótum upp að 790.000 kr. í samanlögð mánaðarlaun.

Í annan stað er gert ráð fyrir að efri skerðingarmörk tekjustofns barnabóta hækki um 12%. Efri skerðingarmörkin hafa haldist óbreytt frá upptöku þeirra árið 2019 en voru þá 52,8% hærri en neðri skerðingarmörkin. Síðan þá hafa neðri skerðingarmörkin hækkað árlega og leitt til þess að bilið milli skerðingarmarkana hefur minnkað. Þessu er að hluta til mætt með frumvarpinu þar sem lögð er til hlutfallsleg hækkun á efri skerðingarmörkin sem er umfram þetta með neðri skerðingarmörkin. Að lokum er lagt til að fjárhæðir barnabóta hækki á bilinu 5,5–5,8%. Fyrir einstæða foreldra hækka barnabætur með fyrsta barni um 22.300 kr. og verða 413.000 kr. og barnabætur greiddar með börnum umfram eitt hækka um 20.200 kr. og verða 423.000. Fyrir foreldra í sambúð hækka barnabætur með fyrsta barni um 13.500 kr. og verða 248.000 kr. og barnabætur greiddar með börnum umfram eitt hækka um 15.800 kr. og verða 295.000 kr. Barnabætur sem greiddar eru með börnum yngri en sjö ára hækka um 8.000 kr. og verða 148.000 kr.

Verði frumvarpið að lögum mun samspil breyttra skerðingarmarka og hærri fjárhæðar barnabóta leiða til þess að barnabætur hækka á komandi ári.

Heildarútgjöld barnabóta árið 2022 eru áætluð 13,9 milljarðar á verðlagi ársins. Gert er ráð fyrir að þær hækkanir sem lagðar eru til á fjárhæðar- og skerðingarmörkum tekjustofns barnabóta rúmist innan fjárheimilda barnabóta á árinu 2022 og leiði ekki til hækkana á útgjöldum ríkissjóðs. Þetta leiðir af því að talsverðar nýlegar launahækkanir hefðu ella orðið til þess að fjárheimildin á bak við barnabætur í fjárlögum, eins og þau voru lögð fram á þinginu fyrir nokkrum dögum, hefðu skert barnabætur með þeim hætti að fjárheimildin hefði ekki öll gengið út. Við þessu er brugðist.

Þá er komið að vaxtabótunum. Lagt er til bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að útreikningsreglur vaxtabóta verði framlengdar eitt ár í viðbót sem þýðir að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir kerfisins verði þær sömu á árinu 2022 og voru á þessu ári en útgjöld vegna vaxtabóta eru áætluð 2,2 milljarðar á næsta ári á grundvelli þessara forsendna.

Næst er það greiðsla kostnaðar vegna reksturs Fjármálaeftirlits og skilavalds. Það eru lagðar til breytingar á eftirlitsgjaldi og ýmsum fastagjöldum samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Heildarbreytingar á hlutfallstölum endurspegla árlegt eftirlitsgjald til að standa undir rekstri Fjármálaeftirlits og skilavaldsins. Lögð er til sú breyting að við gerð rekstraráætlunar Fjármálaeftirlitsins verði horft til áætlunar á þróun starfseminnar næstu þrjú árin frekar en að horft sé til síðustu þriggja ára. Með því getur skipting eftirlitsgjaldsins fyrr tekið mið af áherslum stofnunarinnar og breytingum á lagaumhverfi eftirlitsskyldra aðila. Þá er lögð til breyting á eftirlitsgjaldi lífeyrissjóða þannig að gjaldhlutfall þrepaskipts gjalds lækki en fastagjöld hækki. Á heildina litið leiðir breytingin til óverulegrar lækkunar gjaldsins á lífeyrissjóði.

Jafnframt er lögð til breyting á eftirlitsgjaldi þannig að heimilt verði að innheimta gjald af útibúum eftirlitsskyldra aðila hér á landi sem ekki hafa starfsleyfi hérlendis. Sem stendur eru rekin sex slík útibú hér á landi. Þá eru lagðar til breytingar á þann veg að umboðsaðilar greiðslustofnana samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu, dreifingaraðilar rafeyrisfyrirtækja samkvæmt lögum um útgáfu og meðferð rafeyris og lánamiðlarar og lánveitendur samkvæmt lögum um neytendalán sem falla undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins skuli greiða eftirlitsgjald í formi fastagjalds. Um er að ræða nýja gjaldaliði til að standa undir því eftirliti sem er viðhaft. Einnig er lögð til sú breyting að rekstraraðilar sérhæfðra sjóða, sem fengið hafa heimild til að markaðssetja sjóðina hérlendis, skuli greiða fastagjald fyrir hvern slíkan sjóð. Um nýjan gjaldalið er að ræða en nokkur vinna hefur fylgt eftirlitinu. Loks er lögð til hækkun á fastagjöldum vátryggingamiðlara.

Áætlað eftirlitsgjald ársins er samtals 2.332,7 millj. kr. og áætlað er að aðrar tekjur nemi 29,6 milljónum. Gert er ráð fyrir að heildarkostnaður Fjármálaeftirlitsins verði 2 milljarðar og 490 millj. kr. Þannig er gert ráð fyrir að heildarútgjöldin nemi 127,7 milljónum umfram tekjur og að þessum útgjöldum verði mætt með lækkun á uppsöfnuðum rekstrarafgangi Fjármálaeftirlitsins. Áætlað gjald vegna fjármögnunar skilavalds er samtals 94,5 milljónir sem endurspeglar áætlaðan kostnað vegna skilavaldsins.

Eftirlitsgjald til að standa straum af kostnaði við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi tekur því nokkrum breytingum á einstaka liðum en í heildina hækkar gjaldið um 232,9 milljónir. Gjaldið lækkar á lánafyrirtæki, greiðslustofnanir, vátryggingafélög, verðbréfafyrirtæki, aðila með innheimtuleyfi og ýmis eignarhaldsfélög. Lækkun gjaldsins á þessa aðila er vegna lækkunar álagningarstofns og/eða fækkunar aðila í flokknum. Þá lækkar gjaldið á lífeyrissjóði vegna lækkunar álagningarhlutfalls. Fyrir aðra flokka hækkar gjaldið eða stendur í stað.

Næst um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Í frumvarpinu er lögð til hækkun á gjaldhlutfalli álagningarstofns samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara. Í lögunum segir að tekið skuli tillit til rekstrarafgangs eða rekstrartaps af starfsemi umboðsmanns skuldara við ákvörðun á fjárhæð gjalds fyrir næsta almanaksár.

Þá að rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma og kostnaðarþátttöku heimilismanna. Hér er lagt til nýtt ákvæði til bráðabirgða við lög um málefni aldraðra. Það er gert til að koma í veg fyrir að kostnaðarþátttaka heimilismanna á dvalar- og hjúkrunarheimilum aukist við það að tengingar við tekjur maka voru afnumdar. Jafnframt er lagt til að gildandi ákvæði til bráðabirgða í lögunum verði framlengt. Það leiðir til þess að heimilt verður að verja fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða á árinu 2022.

Næst um samspil örorkugreiðslna almannatrygginga og lífeyrissjóða. Hér er lögð til framlenging á ákvæðum til bráðabirgða til að sporna gegn því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju á árinu 2022. Þá er gert ráð fyrir að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar verði sú sama á árinu 2022 og á þessu ári. Frítekjumarkið er nú 1.315.200 kr. á ári sem jafngildir 109.600 kr. á mánuði. Verði bráðabirgðaákvæðið ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 1.315.200 á ári í 300.000 kr. og leiða til lækkunar bóta hjá þeim örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu. Að óbreyttu ákvæði hefðu útgjöldin lækkað um 1 milljarð kr. á árinu 2022.

Næst er komið að sérstöku frítekjumarki vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Hér er lagt til sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega sem nemur 1,2 millj. kr. á ári í dag en lagt er til að það verði hækkað í 2,4 milljónir á ári. Breytingin mun leiða til 540 millj. kr. hækkunar á útgjöldum ríkissjóðs á ári.

Starfsendurhæfingarsjóðir eru næstir hér á dagskrá. Það er lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði. Við ætlum að framlengja ákvæði til bráðabirgða við lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða og lög um tryggingagjald sem kveður á um að starfsendurhæfingarsjóðir fái ekki tekjur af almennu tryggingagjaldi á árinu 2022. Sambærilegt ákvæði hefur verið í gildi frá 2013. Eftir sem áður er gert ráð fyrir óbreyttri fjármögnun frá atvinnurekendum og lífeyrissjóðum eða 0,1%. Þá er gert ráð fyrir að samkomulagi milli fjármála- og efnahagsráðherra og félags- og barnamálaráðherra annars vegar og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs hins vegar verði breytt til samræmis og að á árinu 2022 leggi ríkissjóður Starfsendurhæfingarsjóði til framlag á fjárlögum.

Gert er ráð fyrir að föst krónutala sóknargjalda hækki úr 980 kr. á mánuði samkvæmt gildandi lögum í 985 kr. fyrir árið 2022. Lögboðið framlag til sókna þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga breytist að öllu jöfnu í samræmi við áætlaða breytingu á meðaltekjuskattsstofni einstaklinga 16 ára og eldri, sem og fjölgun einstaklinga. Nú er hins vegar, eins og í fjárlögum fyrir árið 2021, með breytingu á lögum um sóknargjöld, gert ráð fyrir að fastsetja fjárhæð sóknargjalda.

Gjaldskyld losun gróðurhúsalofttegunda og úrvinnslugjald. Gert er ráð fyrir að fjárhæð losunargjalds vegna hvers tonns gjaldskyldrar losunar verði hækkað úr 3 milljörðum — nei, afsakið, hér er fór ég aðeins fram úr mér í fjárhæðinni. Hér er fjárhæð losunargjaldsins undir og vegna hvers tonns gjaldskyldrar losunar verður fjárhæðin hækkuð úr 3.430 kr. í 5.767 kr. Þetta er breyting sem leiðir af breytingum á meðalverði losunarheimilda á Evrópska efnahagssvæðinu eins og það var á árstímabili sem lýkur 31. júlí ár hvert. Jafnframt eru lagðar til hækkanir á úrvinnslugjaldi vegna plastumbúða, heyrúlluplasts, olíuvara, svartolíu, halogenaðra efna, málningar og rafhlaðna. Gert er ráð fyrir að þessar breytingar hafi óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs.

Með lögum um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru var gistináttaskattur felldur brott tímabundið með bráðabirgðaákvæði við lög um gistináttaskatt frá 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021. Að óbreyttu ætti bráðabirgðaákvæði því að renna sitt skeið um áramótin. Í þessu frumvarpi er lögð til tímabundin framlenging á bráðabirgðaákvæðinu og verði það að lögum verður greiðsla og innheimta gistináttaskatts felld niður til og með 31. desember 2023. Verði tillagan að lögum kemur hún til með að lækka skatttekjur ríkissjóðs um 860 millj. kr. á árinu 2022 og 1.030 milljónir á árinu 2023 að gefnum forsendum og þetta er allt að meðtöldum virðisaukaskatti. Áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs eru áætluð 0,01% á næsta ári.

Hér er einfaldlega um það að ræða að ferðaþjónustan er sú grein atvinnulífsins sem kannski er helst enn í sárum. Við höfum ákveðnar ráðstafanir enn á landamærum. Við sjáum að ferðalög eru ekki orðin eins og áður var og gistiþjónusta í landinu er enn að jafna sig eftir heimsfaraldur. Þess vegna myndi það skjóta skökku við að kynna til sögunnar að nýju skatt sem myndi aftur gera þeirri atvinnugrein erfiðara fyrir að reisa sig við. Í stjórnarsáttmálanum er nokkuð fjallað um gistináttagjaldið og rætt um það að eftir því sem atvinnugreinin taki að nýju við sér þá verði endurnýjaður gistináttaskattur kynntur til sögunnar og boðað er að það verði skoðað með sveitarfélögunum hvort hægt sé að finna útfærslu sem myndi mæta þörfum sveitarfélaganna fyrir ýmiss konar fjárfestingu og ráðstafanir sem tengjast komum ferðamanna. Eins og við þekkjum af eldri umræðu hér í þinginu um það mál skiptast sveitarfélögin dálítið í tvö hólf. Það eru annars vegar sveitarfélög sem hafa mörg gistirými innan sveitarfélagsmarkanna og myndu þar af leiðandi fá talsverðar tekjur af slíkum skatti og svo eru það hins vegar sveitarfélög sem finna töluvert fyrir ferðamannastraumnum án þess að vera með mörg gistirými og slík sveitarfélög kalla eftir því að fá hlutdeild í skattinum sem er ætlaður til þess að mæta beinum og óbeinum kostnaði fyrir sveitarfélögin beint af komum ferðamanna.

Þetta er löng umræða sem ég ætla ekki að fara út í nákvæmlega hér en frumvarpið gerir sem sagt ráð fyrir því að næstu tvö árin myndum við geta unnið nánar með reynsluna af því að hafa haft þennan skatt og fylgst náið með því hvernig greininni gengur að reisa sig við eftir heimsfaraldur. Við gætum átt þetta samtal við sveitarfélögin og ég hlýt að benda á að í upphafi, þegar við opnuðum á það í stjórnarsáttmálanum frá 2017 að eiga samtal við sveitarfélögin um gistináttaskattinn, var ávallt gert ráð fyrir því að það samtal færi fram í einhverju heildarsamhengi fjárhagslegra samskipta ríkis og sveitarfélaga.

Mig langar til að færa mig úr gistináttaskattinum yfir í grunnforsendur flokkunar ríkisaðila samkvæmt lögum um opinber fjármál. Við leggjum í þessu frumvarpi til breytingu á 50. gr. laga um opinber fjármál ásamt nauðsynlegum breytingum til samræmis á öðrum greinum. Þetta er gert til þess að laga ákveðið ósamræmi þar sem alþjóðlegi hagskýrslustaðallinn um opinber fjármál, sem við köllum almennt GFS, tekur alfarið mið af eðli starfseminnar við flokkun ríkisaðila í A-, B- og C-hluta aðila samkvæmt núverandi 50. gr. laganna, þ.e. GFS-staðallinn tekur alfarið mið af eðli starfseminnar við flokkun ríkisaðila en flokkun í A-, B- og C-hluta samkvæmt núverandi 50. gr. ræðst af ábyrgðarsjónarmiðum. Hérna þykir rétt að gera breytingar svo samræmis sé gætt við framsetningu á opinberum fjármálum. Þetta skiptir máli svo ekki þurfi sífellt að vera með einhvers konar sérstakar skýringar þar sem byggð er brú frá einum staðli yfir í aðra framsetningu.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir helstu atriði frumvarpsins og vil láta þess getið undir lok míns máls að við samningu frumvarpsins var m.a. skoðað hvort framlengja ætti átakið Allir vinna. Það er átak sem hefur gengið út á það að endurgreiða einstaklingum að fullu virðisaukaskatt af tiltekinni þjónustu og hefur reynst vel. Við höfum í gegnum tíðina ýmist verið að styðjast við 60% endurgreiðsluhlutfall eða 100% endurgreiðsluhlutfall og ég vil bara láta þess getið hér að við erum að greina hver möguleg áhrif af því væru á næsta ári að framlengja átakið, skoða gögn um það hvernig átakið hefur reynst á þessu ári og þann tíma sem við höfum verið með 100% endurgreiðslur í gildi. Mér þykir mjög líklegt að við munum leggja til að átakið verði framlengt. Það er svona álitamál hversu lengi það ætti að vera, en þessum gögnum myndum við vilja geta komið á framfæri við þingið á næstu dögum eftir að málið hefur farið til nefndar til frekari skoðunar.

Ég vildi láta þess getið, vegna þess að ég hef fundið fyrir umræðu um þetta atriði sérstaklega og vissulega vorum við að ræða þetta í kosningum fyrir ekki alls löngu og flestir sammála um að rétt væri að framlengja átakið. En ég vildi hins vegar byggja undir slíka tillögugerð með gögnum sem gætu dýpkað umræðuna og þau eru að fæðast.

Þá vil ég láta þess getið að frumvarpið hefur áhrif á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt eins og menn geta getið sér nærri. Það er gert ráð fyrir að þessi verðlagsuppfærsla krónutöluskatta skili ríkissjóði 1,7 milljörðum, eins og ég rakti áðan, og þar eru inni hliðaráhrif á virðisaukaskattinn. Þetta eru takmörkuð áhrif upp á 0,08% á vísitölu neysluverðs og tekjuskatturinn lækkaður um 2,3 milljarða vegna framleiðniviðmiðs sem ég rakti áðan.

Heildarútgjöld barnabóta eru áætluð 13,9 milljarðar. Það má áætla að með þeim breytingum sem hér eru lagðar til vaxi útgjöld vegna barnabóta þó nokkuð miðað við það sem ella hefði orðið. Ég er ekki með þá tölu hjá mér í augnablikinu en ég myndi treysta mér til að slá á að það gæti munað allt að 2 milljörðum.

Tillaga í frumvarpinu um óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiðir til þess að útgjöld vegna vaxtabóta nema 2,2 milljörðum á árinu 2022. Við sjáum af þessu að vaxtabótakerfið er smám saman, ár frá ári, að skreppa saman og við hafa tekið önnur úrræði, almenna íbúðakerfið, hlutdeildarlánin og fleiri úrræði, sem vekur upp spurningar um það hvort við ættum mögulega að flytja þá fjármögnun alfarið yfir í þessi nýju úrræði. En hér er ekki verið að leggja það til heldur gengið út frá því að vaxtabætur á næsta ári verði 2,2 milljarðar.

Ég hef rakið þetta með gistináttaskattinn og sömuleiðis með atvinnutekjur ellilífeyrisþega, að tvöfalda frítekjumarkið.

Aðrar breytingar hafa ýmist áhrif á tekju- og/eða gjaldahlið en eru mjög óverulegar.

Að því sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.