152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[14:34]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að bæta eigi afkomu og möguleika örorkulífeyrisþega til virkni og atvinnuþátttöku á eigin forsendum. Þetta er göfugt markmið og við vitum, vegna kannana sem gerðar hafa verið fyrir Öryrkjabandalagið, að ein helsta hindrunin fyrir atvinnuþátttöku öryrkja eru skerðingarnar í kerfinu, skerðingarnar sem valda því að þegar fólk með skerta starfsgetu finnur starf við hæfi þá éta launin nær strax upp greiðslurnar frá Tryggingastofnun. Þetta er fátæktargildra þar sem skatta- og bótakerfið vinnur beinlínis gegn sjálfsbjargarviðleitni fólks. Hér er um að ræða áttunda fjárlagabandorm hæstv. ráðherra Bjarna Benediktssonar og þetta eru áttunda fjárlögin þar sem frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum stendur í stað. Og núna með þessum bandormi verður það hátt í helmingi lægra en frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki á sama tíma og bilið milli lífeyris og launa hefur breikkað og breikkað. Hvernig væri það nú að hækka frítekjumarkið hjá þessum hópi, auka frelsi fólks með skerta starfsgetu til að afla sér tekna (Forseti hringir.) og sækja sér bjargir utan almannatryggingakerfisins, t.d. hækka það til jafns við frítekjumark atvinnutekna hjá eldra fólki? Er það eitthvað sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra myndi styðja?