152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[14:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú eins og ég lét getið um hér áðan, varðandi átakið Allir vinna, að ég hafði vonast til að geta komið með betur undirbyggð gögn en hægt var að undirbúa fyrir framlagningu frumvarpsins. Ég boða það þess vegna að eftir að við höfum fjallað um málið í ráðherranefnd og eftir atvikum í ríkisstjórn mun ég leggja til ákveðnar breytingar við nefndina. Við sjáum bara hvernig úr því spilast hér í þinginu. Ég heyri það sem hv. þingmaður segir að hann myndi styðja það enda gerðu flestir flokkar það fyrir kosningar, ef ég man rétt. Varðandi framlengingu á bráðabirgðaákvæðum eru þær í öllum tilvikum ívilnandi. En það er þessi saga sem hv. þingmaður var að rekja hér og hún er til vitnis um að okkur hefur ekki tekist að fara í heildarendurskoðun á kerfinu. Þess vegna erum við föst í þessum endalausu framlengingum ár hvert á ýmsum ívilnandi ákvæðum laganna. Ég held að við verðum að láta okkur hafa það einu sinni enn. En mér finnst meiru skipta að við förum í þessa alvöruvinnu. Ég held að hægt sé að gera miklar umbætur á kerfinu án þess að það þurfi að kosta mjög mikið.