152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[14:42]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Ég vil benda á að hann sagði að Öryrkjabandalagið hefði stoppað endurskoðun almannatryggingakerfisins þegar eldri borgarar fengu sína endurskoðun. Það hefði verið Öryrkjabandalaginu að kenna. Það var ekki Öryrkjabandalaginu að kenna vegna þess að Öryrkjabandalagið vildi bara ekki kyngja því sem því var boðið, var ekki sátt við það. Við skulum hafa það alveg á hreinu. Síðan er annað sem er stórfurðulegt í þessu. Hann segir að öryrkjar hafi ekki setið eftir. Ég bið hæstv. ráðherra þá að skýra það út fyrir mér hvernig í ósköpunum stendur á því að öryrkjar með 109.000 kr. frítekjumark, ef það væri uppreiknað síðan það var sett á, þ.e. 109.000 krónurnar, þá eru það 220.000 kr. Ég bið hæstv. ráðherra líka að skýra það út fyrir mér hvers vegna í ósköpunum allir styrkir sem öryrkjar fá eru fastir og hækka ekki. Og þeir hafa setið fastir undanfarin ár og áratugi. Er það ekki skerðing?