152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[14:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í sjálfu sér er engin breyting varðandi túlkun ákvæðisins sem fjallar um lágmarksbreytingar sem ber að gera um hver áramót. Það hefur alltaf verið sjónarmið fjármálaráðuneytisins að hver ríkisstjórn geti síðan ákveðið að breyta umfram þær lágmarkskröfur sem lög kveða á um. Hér hefur að jafnaði verið miðað við þær verðlagsforsendur sem almennt eru notaðar í frumvarpinu og þegar það gerist, eins og átti við árið 2021, að verðbólgan verður hærri má segja að ekki sé óeðlilegt að horft sé til þess að bæturnar hækki þá a.m.k. um það sem munar á því að verðlag varð á endanum hærra en forsendur fjárlagafrumvarpsins gengu út frá. En því til viðbótar er hér, og bara til að undirstrika enn frekar hvernig við horfum á 69. gr., tekin sjálfstæð ákvörðun um 1% til viðbótar sem ríkisstjórnir geta ákveðið að gera.