152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[14:54]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Forseti. Við ræðum hér um fjárlagabandorminn og ég ætla að byrja á því að fara yfir atriði sem mér líst mjög vel á. Þar ber helst að nefna þau nýmæli að árleg uppfærsla skattleysis- og þrepamarka í tekjuskattskerfinu verði hér eftir miðuð við hækkun neysluverðsvísitölunnar og áætlaðan framleiðnivöxt í hagkerfinu. Þetta er snjallt og með þessu er verið að slá tvær flugur í einu höggi, viðhalda sveiflujöfnunaráhrifum tekjuskatts- og bótakerfisins en um leið verjast ójafnaðaráhrifum af raunskattsskriði. Þessi breyting snýst um það, og er skýrt tekið fram í greinargerð, að koma böndum á raunskattsskrið, þá þróun þegar skattbyrði tekjulægri hópa eykst og eykst af miklu meiri þunga en skattbyrði þeirra tekjuhærri. Þetta sætir nokkrum tíðindum því að síðan hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson tók við embætti árið 2013 hefur skattbyrði tekjulægstu hópa íslensks samfélags aukist ár eftir ár, stig af stigi. Hvernig gerðist það? Jú, það gerðist vegna þess að persónuafsláttur fylgdi ekki launaþróun, vegna þess að bótafjárhæðir rýrnuðu að raunvirði og skerðingarmörk vaxta- og barnabóta hækkuðu ekki í takt við laun og fasteignaverð og þetta var bara pólitísk ákvörðun. Raunskattsskrið af þessu tagi, þetta er skemmtilegt orð, er bara klassísk leið hægri manna til að hækka skatta á venjulegt fólk á meðan skattbyrðin er lækkuð hjá hinum tekjuhæstu og eignamestu, hún er færð til. Lengst af talaði hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um þetta raunskattsskrið sem eins konar náttúrulögmál, eitthvað sem hlyti bara að gerast þegar uppgangur væri í hagkerfinu. En það er fagnaðarefni að með þessum bandormi er horfið af þeirri braut með þessum mjög snjalla hætti og viðurkennt að koma þurfi böndum á raunskattsskrið, svo að ég noti nú orðalag úr greinargerð frumvarpsins. Auðvitað hefðu samt margar af tekjulægri fjölskyldum landsins alveg þegið það að vera hlíft við aukinni skattbyrði síðustu átta árin þegar sköttum og gjöldum var einmitt létt af stórútgerðinni og ríkasta fólkinu á Íslandi. Þetta er til bóta en að öðru leyti er þetta ekkert sérlega geðslegur bandormur.

Í fjárlögunum sjáum við enga raunhækkun framlaga til barnabótakerfisins og í þessum bandormi er þess mjög vandlega gætt að hvers kyns hreyfingar á fjárhæðum og skerðingarmörkum feli ekki í sér aukin útgjöld eða aukinn stuðning við barnafjölskyldur á Íslandi yfir það heila. Það er bara verið að hliðra til peningum innan kerfisins. Barnafólk þarf áfram að búa við skarpar skerðingar og tekjutengingar, ólíkt því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum þar sem litið er á barnabætur sem svona almennt stuðningsnet, verkfæri til að létta undir með fólki sem er að ala upp börn, lágtekju- og millitekjufólki. Þetta og svo auðvitað hin algjöra stöðnun í þessum fjárlagapakka þegar kemur að félagslegri húsnæðisuppbyggingu er ekki gott veganesti inn í kjarasamningana á næsta ári.

Við sjáum líka í bandorminum að áfram er gert ráð fyrir því að Framkvæmdasjóður aldraðra hlaupi undir bagga þegar kemur að rekstri hjúkrunarrýma frekar en að geta einbeitt sér að sínu grunnhlutverki, sem er uppbygging nýrra hjúkrunarheimila, nokkurs sem sárvantar vegna útskriftarvanda Landspítalans og ómanneskjulegs álags í heilbrigðiskerfinu. Það má vera að ríkisstjórnin líti fyrst og fremst á aukna heimaþjónustu sem lausn á þessum vanda, a.m.k. ber stjórnarsáttmálinn það með sér, þar er ekki einu sinni minnst á hjúkrunarheimili og hjúkrunarrými. En þá kemur það náttúrlega á óvart að engin merki eru um neitt stórátak í heimaþjónustu í fjárlagafrumvarpinu.

Hér bólar heldur ekkert á alvörusókn í loftslagsmálum, til að mynda þegar kemur að grænum gjöldum eða grænum ívilnunum. Þar sjáum við bara algera lognmollu svo að þessi fjárlagapakki í heild endurspeglar ekki með neinum hætti þá staðreynd að ríkisstjórnin hefur uppfært loftslagsmarkmið sitt, stefnir núna loksins að 55% samdrætti í losun fyrir árið 2030, sem er náttúrlega orðin tóm ef því markmiði verður ekki fylgt eftir þegar kemur að útgjöldum og tekjum ríkisins. Það segir sig sjálft.

Í frumvarpinu er heldur ekki sýnd nein alvöruviðleitni til að jafna byrðarnar í samfélaginu, beina skattheimtunni að ofurarði, ofureignum eða ofurtekjum. En verst af öllu er þó kaldlyndið gagnvart þeim hópum í íslensku samfélagi sem verst standa, ekki síst þeim sem reiða sig á lífeyri. Með breytingunum á frítekjumarki, sem hér eru boðaðar, verður staðan þannig eftir áramót að frítekjumark eldra fólks vegna atvinnutekna verður orðið átta sinnum hærra en frítekjumarkið vegna lífeyristekna. Almenna frítekjumarkið á áfram að standa í 25.000 kr. á mánuði og eftir það byrja bara skerðingarnar að bíta. Og hvaða hópur er það sem þarna er skilinn eftir? Jú, á hverjum bitnar þetta? Þetta bitnar á fólkinu sem hefur unnið lýjandi störf alla ævi. Þetta bitnar á verkafólki. Þetta bitnar á iðnaðarmönnum, hjúkrunarfræðingum, sjómönnum, fólkinu sem hefur unnið erfiðisvinnu og þarf heilsu sinnar vegna að leggja niður störf þegar komið er á eftirlaunaaldur, láta sér nægja greiðslur frá Tryggingastofnun og frá lífeyrissjóðnum sínum. Þetta er eldra fólkið sem á að sitja eftir með átta sinnum lægra frítekjumark.

Hvað þýðir það t.d. fyrir eldri konu sem hefur alið upp þrjú börn, borið hitann og þungann af heimilishaldinu eins og oft er, barnauppeldinu, unnið slítandi störf á lágum launum þess á milli? Óskertur væri ellilífeyrir hennar 266.000 kr. eins og kerfið er í dag en segjum að hún fái 80.000 kr. úr lífeyrissjóði þá skerðast bæturnar um tæpar 25.000 kr. og eftir að skatturinn hefur líka tekið sitt verða eftir fyrir þessa konu 271.000 kr., 5.000 kr. aukalega. Það er nú allur ávinningurinn af því að hafa greitt í lífeyrissjóð alla ævi eins og almannatryggingakerfið okkar er í dag. Finnst hæstv. fjármálaráðherra forsvaranlegt að skattpína fólk með þessum hætti? Og hvernig dettur hæstv. fjármálaráðherra í hug, og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, að viðhalda þessu kerfi ár eftir ár frekar en að hækka frítekjumarkið vegna lífeyristekna og binda enda á langvarandi kjaragliðnun milli launa og lífeyris? Hvers vegna er það ekki gert?

Ég hef nægan tíma, sýnist mér, þannig að ég ætla líka að víkja nokkrum orðum að öryrkjum, að fólki með skerta starfsgetu. Eins og ég minntist á áðan er frítekjumark atvinnutekna hjá öryrkjum 109.600 kr. Það frítekjumark hefur staðið í stað í tíu ár. Það hefur staðið í stað í hverjum einustu fjárlögum sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson hefur lagt fram og í hverjum einasta fjárlagabandormi. Tökum raunverulegt dæmi um hvað þetta þýðir: Kona með 75% örorku — segjum að hún fái tímabundið verkefni í einn og hálfan mánuð og 153.000 kr. greiddar fyrir verkið. Hvernig spilast þetta þá? Jú, greiðslur Tryggingastofnunar skerðast um 53.000 kr. Skatturinn tekur 78.000 kr. og eftir standa 27.000 kr. Svona er fyrirkomulagið. Finnst hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarna Benediktssyni þetta sanngjarnt kerfi? Getur hann réttlætt það að hafa þetta skerðingarkerfi svona áfram eftir átta ára setu í fjármálaráðuneytinu? Vill hæstv. fjármálaráðherra í alvörunni skilja við kerfið svona þegar hann lætur af embætti einn daginn? Þetta eru spurningar sem vakna þegar þessi bandormur er lesinn. Vonandi getur hæstv. ráðherra útskýrt betur fyrir okkur hver heildarhugsunin er, hvert hann og ríkisstjórnin eru að fara með almannatryggingakerfið okkar. Þá bendi ég á að einhverjir frasar um að það þurfi að taka kerfið til heildarendurskoðunar á kjörtímabilinu o.s.frv. eru ekki gilt svar þegar menn hafa setið átta ár í embætti og nú fjögur ár með sömu flokkunum í ríkisstjórn.