152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:05]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra talaði um raunskattsskrið sem þróun sem hefði átt sér stað áratugum saman. En það er nú samt þannig að ef við lítum þó nokkur ár aftur í tímann sjáum við að það er tímabil þar sem raunskattsskriðið átti sér ekki stað í sama mæli og áður þar sem það gerðist loksins að skattbyrði tekjuhæstu tíundanna jókst meira, jókst meira að segja meðan skattbyrði tekjulægstu tíundanna dróst örlítið saman. Þetta er þegar ríkisstjórn jafnaðarmanna og Vinstri grænna var við völd. Hæstv. ráðherra minntist á vefinn tekjusagan.is og mér fannst einmitt athyglisvert að á þeim vef er hvergi hægt að sjá nákvæmlega skattbyrði milli ára. Þetta fannst mér svolítið áberandi þegar vefurinn var kynntur með pompi og prakt fyrir nokkrum árum. Það er nefnilega þannig að þótt hæstv. fjármálaráðherra tali um að ráðstöfunartekjur ráðist m.a. af skattbyrði þá er það staðreynd að því meiri sem skattbyrðin er þeim mun lægri verða ráðstöfunartekjur hjá hópum. Skattbyrði heldur aftur af ráðstöfunartekjum, veldur því t.d. að hjá sumum hópum í íslensku samfélagi aukast nafnlaun meira en ráðstöfunartekjurnar — nú er ég búinn að missa þráðinn en þetta hangir saman. Það er ekki hægt að slíta ráðstöfunartekjur frá skattbyrði eins og ráðstöfunartekjur séu það eina sem skiptir máli. Skatturinn skiptir líka máli og allt eru þetta pólitískar ákvarðanir um það hvernig gæðunum í samfélaginu okkar er skipt.