152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:16]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek bara heils hugar undir orð hv. þingmanns, þetta eru góðar athugasemdir og hugleiðingar. Það sem við sjáum í fjárlagafrumvarpinu og fjárlagabandorminum sem við ræðum er ávísun á það að þessi þróun, þar sem lífeyrir dregst aftur úr lægstu launum í samfélaginu, haldi áfram næstu ár. Þessi smáviðbót, sem birtist í frumvarpinu í forsendum um þróun almannatrygginga, dugar hvergi nærri til að stöðva það sem kallað er kjaragliðnun og veldur auknum ójöfnuði í samfélaginu. Maður hefur líka áhyggjur af ójöfnuði meðal eldra fólks, í þeim hópi. Ég man ekki betur en að ég hafi séð nýlegar rannsóknir sem sýna að ójöfnuður meðal eldra fólks er umtalsvert meiri á Íslandi en víða annars staðar. Þá hlýtur nú eitthvað að vera bogið við almannatryggingakerfið okkar, þetta skerðingarkerfi.