152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:29]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022. Þar kennir margra grasa en ég vil byrja á að ræða þá uppákomu sem varð í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann fór að tala um þegar samið var um skiptingu kerfisins hér á árum áður þegar eldri borgarar sömdu og króna á móti krónu skerðingar þeirra voru teknar út. Hann sagði hreinlega að öryrkjar hefðu verið skildir eftir og þeir hefðu tapað milljörðum á því. Það verður að segjast alveg eins og er að öryrkjar hefðu farið mjög illa út úr því starfsgetumati sem var í þeim drögum sem þar voru sett fram. Það hefði valdið algerum hörmungum hjá þeim hópi vegna þess að þegar sú umræða fór fram var talað um ákveðnar þvinganir, að þvinga hóp öryrkja í eitthvað sem þeir myndu aldrei ráða við og þeir fengju engu að ráða um hvort þeir gætu eða gætu ekki. Og ekkert til vara þannig að þeir gætu varið sig ef kerfið sem þeir áttu að fara í gengi ekki upp. Þetta sýnir sig líka best þegar hæstv. fjármálaráðherra fullyrðir, eins og hann gerði áðan í andsvörum, að öryrkjar hafi fengið ótrúlega miklar hækkanir. Öryrkjar undanfarinna áratuga hafa ekki fengið nema rétt að ná því að þakka fyrir hækkanir í samræmi við vísitölu neysluverðs á hverju ári. Samt stendur skýrum stöfum í 69. gr. að farið skuli eftir launaþróun og ekki eftir vísitöluhækkuninni nema hún sé hagkvæmari. Þetta hefur valdið því að örorkulífeyririnn er það lágur, sem hann er í dag, að sumir eru í fátækt og aðrir virðast vera í sárafátækt.

Það segir sig líka sjálft að það er stórfurðulegt kerfi sem þessi ríkisstjórn og ríkisstjórnir undanfarinna ára verja sig með þegar þær segja við einstaklinga sem þær ætla að veita styrk — hvort sem það er til lyfjakaupa, bensínkaupa eða á einhvern annan hátt, fyrir hjálpartæki eða annað — að þeir skuli hafa fasta krónutölu og sú krónutala er ekki látin hreyfast í áratug eða áratugi. Það er skerðing. Verið er að lækka stórlega tekjur þeirra sem þurfa á þessum styrkjum að halda. Það sækir enginn um þessa styrki og það fær enginn þessa styrki nema hann þurfi nauðsynlega á því að halda. Það er enginn að fá bílastyrk, það er enginn að fá lyfjastyrk nema þurfa á því að halda. Það er ömurleg sýn að núverandi ríkisstjórn og fyrri ríkisstjórnir skuli ár eftir ár, áratugum saman, hafa leyft sér að níðast á þennan hátt á þeim sem virkilega þurfa á því að halda að fá þetta.

Við sjáum líka hvað þetta kerfi er arfavitlaust — eins og þegar ég fór í andsvar við hæstv. ráðherra — þegar verið er að framlengja til bráðabirgða hvert atriðið á fætur öðru. Svo koma þeir úr ríkisstjórn hingað upp mjög stoltir af því að þeir ætli að hækka frítekjumark eldri borgara úr 1.200.000 í 2,4 milljónir á ári, eða úr 100.000 kr. upp í 200.000 kr. Þvílík ofrausn. Það sem er kannski stórmerkilegast í þessu er að þeir segja að það kosti 500 milljónir. En hefur einhver séð útreikninginn á því hvernig það kostar 500 milljónir? Ég hef ekki séð hann, enda gætu þeir ekki sýnt þann útreikning, það er útilokað vegna þess að þetta kostar ekki krónu. Þetta er hagur ríkisins af því að skatttekjur, virðisauki og ýmsir aðrir jákvæðir hlutir eru ekki teknir með í dæmið. Það sem er merkilegast við þetta er að þeir gera ekkert fyrir öryrkja í þessu samhengi. Það eiga að vera sömu 109.000 kr. og hafa verið síðan 2012 sem ættu í dag að vera að lágmarki 220.000 kr. ef rétt væri gefið. Nákvæmlega það sama gildir um þessar krónutölur og með eldri borgarana. Það er hagur ríkisins að leyfa þessu fólki að vinna. Ef öryrki sem er á strípuðum launum getur unnið fer hann að vinna og borgar skatta og hann hefur það betra. En ríkisstjórnin segir: Nei, það verður að skerða.

Til hvers að fara að vinna ef þú veist að það sem þú átt að fá í vinnulaun verður tekið af þér? Ég er með það alveg á hreinu að við í þinginu værum ekkert að vinna hérna og við myndum aldrei leggja okkur eins mikið fram og við gerum ef við vissum fyrir fram að við fengjum engin laun, þau yrðu bara skert, króna á móti krónu. Það er svo heimskulegt að það ríður ekki við einteyming að svona kerfi skuli viðgangast. Ríkið er tilbúið að borga einstaklingi sem er á örorku fyrir að hann sitji heima og það refsar honum gróflega ef hann reynir kannski að vinna í þrjá mánuði. Fyrir einstaklinga sem fara út á vinnumarkaðinn er kerfið svo flókið. Þótt þú sért með frítekjumark eru ákveðnar bætur sem skerðast alltaf. Þú lendir alltaf í vandræðum með kerfið vegna þess að það er byggt þannig upp, vísvitandi og viljandi, að skerðingarnar eru ekki á einum stað, þær eru út um allt kerfið. Þess vegna kallar maður þetta keðjuverkandi skerðingar. Þær geta sveigst út um allt. Það sem er eiginlega fáránlegast í þessu öllu er að þetta er ekki bara innan kerfisins, það fer líka út til sveitarfélaga og í félagsbótakerfið þar, eins og t.d. í sérstakar leigubætur.

Ég veit það ekki en ef nóbelsverðlaun væru veitt fyrir heimsku og heimskulegt kerfi þá myndum við vinna, alveg á stundinni. Og við myndum líka vinna ef veitt væru nóbelsverðlaun fyrir að viðhalda gjörsamlega heimskulegu kerfi og bæta í það aftur og aftur, bæta í það: Við ætlum að framlengja þetta og hitt til bráðabirgða. Og víxlverkun örorkubóta og lífeyrissjóða, maður er oft búinn að tala sig bláan um hvað þetta er vitlaust kerfi. En hvað gerir ríkisstjórnin? Jú, við ætlum að halda áfram með það. Og hvaða afsökun hefur hún alltaf? Jú, hún hefur þá afsökun að ekki sé búið að semja við öryrkja. Ekki hefur verið séð til þess að öryrkjar hlýði ríkisstjórninni og fari út á vinnumarkað á þeirra forsendum, ekki á forsendum öryrkjanna sjálfa, nei, á forsendum ríkisstjórnarinnar. Kannski er það að mörgu leyti ekki sanngjarnt, og það hefur verið notað sem rök, að ef við tökum tvo einstaklinga á vinnumarkaði, annar er öryrki og hinn er fullvinnandi frískur einstaklingur, og þeir vinna hlið við hlið, að ef öryrkinn væri ekki skertur væri hann að fá meira en hinn vinnandi maðurinn. Það er enginn vandi að ganga frá kerfinu þannig að það sé ekki. Við eigum að miða t.d. við meðallaun en ekki að byrja strax.

Við erum með stórfurðulegt kerfi. Barnabótakerfið okkar er t.d. líka eitt furðufyrirbrigðið, að við skulum skerða bætur við lægstu laun. Tveir einstaklingar á lágmarkslaunum, barnabætur þeirra byrja strax að skerðast. Við erum ein á Norðurlöndum með svo stórfurðulegt kerfi. Sumar Norðurlandaþjóðir eru með þannig kerfi að það skerðist ekki neitt. Sumar eru með kerfi þar sem skerðingin byrjar þegar mánaðarlaun eru komin yfir milljón en við byrjum að skerða strax við lægstu laun. Þetta sýnir okkur svart á hvítu að við þurfum að fara að breyta kerfinu þannig að það sé mannúðlegt og auðskiljanlegt. Það er auðvitað alveg óþolandi að við skulum hafa búið til kerfi sem er svo flókið að enginn skilur það og allra síst þeir sem eiga að lifa í því. Hugsið ykkur, þegar maður spáir í þetta verðbólguskot sem er komið, að í upphafi þessa árs var öryrkjum og eldra fólki stillt upp við vegg og það átti að reikna út hver verðbólgan yrði til að geta sett fram rétta tekjuáætlun. Hafið þið séð Seðlabankann eða bankana geta reiknað út rétta verðbólgu? Þeir hafa kannski verið eitthvað nálægt því en kannski hefði verið nær að spyrja öryrkjana og eldri borgarana hver væri rétta verðbólgan þegar þeir voru að fylla út skattskýrsluna sína og áætla tekjurnar fram í tímann.

Málið er einfalt núna, það er eitt sem liggur mest á í þessu samhengi og það er að samþykkja og lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks. Meðan það er ekki gert held ég að það sé dauðadæmt að reyna að endurskoða kerfið. Það þarf að drífa í því strax eftir áramótin að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks og síðan að tala um kerfi fyrir öryrkjana og breyta því, einfalda þetta bútasaumaða skrímsli sem Tryggingastofnun og almannatryggingakerfið er orðið, gera það einfalt. Svo einfalt þurfum við helst að hafa það að hvert einasta mannsbarn skilji það. En ég óttast að það verði því miður ekki raunin. Ef maður les fjármálaáætlun er ekki reiknað með neinu fyrir þennan hóp og eins og hefur komið fram er ríkisstjórnin ofsalega stolt og ánægð og finnst hún hafa gert alveg rosalega mikið fyrir þennan hóp að ætla að gefa honum 1% umfram verðtryggingu, 1% sem skilar þeim lægstu 1.500 kr. eftir skatta og jafnvel engu eftir skerðingar. Það er aumt og því miður er ekkert í þessu riti sem breytir því. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra sé einmitt að boða það stoltur að þetta sé allt sem koma skal. Ég vona samt heitt og innilega að þessi ríkisstjórn sjái einhvern tíma ljós fram undan en ég stórefa að svo verði. Þau hafa hingað til ekki sýnt það, á þeim fjórum árum sem þau hafa verið við völd, og þau sýna það ekki í fjárlagafrumvarpinu, ekki í þessum breytingartillögum. Ég óttast mest að þau geri það ekki heldur þegar frumvarpið kemur til 2. umr.

Ég vona samt heitt og innilega að þau taki sig til og séð verði til þess að allir þeir sem eru í almannatryggingakerfinu, eldra fólk sem hefur gjörsamlega setið eftir í Covid og öryrkjar sem hafa orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna þess að þeir hafa líka setið eftir heima, fái a.m.k. 100.000 kr. skatta- og skerðingarlausa eingreiðslu nú fyrir jólin. Ég held að það ætti ekki að vera erfitt miðað við skúffupeninga og annað sem ríkisstjórnin og ráðherrar hafa sent frá sér eða spreðað.