152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Spólum eitt ár aftur í tímann og horfum fram á árið 2021. Gert er ráð fyrir 3,4% launaþróun og 3,6% verðbólgu. Ríkisstjórnin, fjármálaráðuneytið, ákveður, samkvæmt lögum um almannatryggingar, að hækka almannatryggingar um 3,6%, sem er hærri talan af þessu tveimur, launaþróun og vísitölu. Nú sjáum við hins vegar að verðlagsþróun vísitölu neysluverðs hækkar um 4,4%, er 0,8% hærri en gert var ráð fyrir. Þannig að þau sem sáu fram á 3,6% hækkun fyrir ári verða fyrir vonbrigðum, að sjálfsögðu. En þá kemur ríkisstjórnin og segir: Heyrið, þessi 0,8%, við ætlum ekki að greiða ykkur það afturvirkt. Látum það vera. En hækkum það alla vega, tökum tillit til þess núna. Hækkum ekki um 3,8%, eins og gert er ráð fyrir að launaþróun verði á næsta ári, sem er hærra en verðbólgan á að vera á næsta ári, sem er áhugavert út af fyrir sig. Þá ætlum við að segja: 4,6%, gjörið svo vel, af því að ykkur vantaði 0,8% í fyrra Og svo ætlum við að vera aðeins meira góð og bæta heilu prósenti ofan á það, 5,6%. Frábært. Er það ekki æðislegt? Það hljómar mjög jákvætt. En eins og við byrjuðum á að segja þá er það sem er hærra, launaþróun eða verðlagsþróun, sem skiptir máli. Frá október 2020 til október 2001 hefur launaþróun verið 7,6%, launavísitalan. Þannig að ef bæta ætti það upp vantar 3% ofan á þetta. Ef tekið væri tillit til 1% líka myndi það verða enn þá meira.

Hvernig leggst þetta tilboð í þennan hóp, að mati hv. þingmanns?