152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[15:58]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina, þetta er langt í frá fyrsta skiptið sem við heyrum sömu skilaboð úr ranni hv. þingmanns. En ég trúi því að þau verði flutt þar til að þau komast til skila. Ég er að velta því fyrir mér að ég upplifi eiginlega að þingið hafi sjaldan verið í betri færum til að koma ákveðnum áherslum til skila þegar kemur að fjárlagaumræðu í ljósi þess hversu ófullkomið plagg þessi fjárlög eru sem við ræðum núna. Það vekur t.d. svona í stóru myndinni undrun mína að hér skuli ekki sitja fleiri þingmenn úr röðum stjórnarflokkanna að ræða þessi mál vegna þess að það er einfaldlega búið að gefa það út að þetta er ófullburða plagg og breytingar munu koma. En mig langaði kannski að spyrja, og ég er svolítið að höggva í sama knérunn og þeir hv. þingmenn sem komu hér upp á undan mér í andsvör við hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson, að ef svo færi að í boði væri tillaga sem gæti náð lengst í því að jafna kjör þessara hópa, öryrkja og eldra fólks, sem hv. þingmaður hefur verið óþreytandi að tala fyrir, hvaða tillaga væri það helst? Ég spyr vegna þess að við tölum öll hér eins og okkur þyki það sjálfsagt mál að laga þetta en það séu einhvern veginn seigfljótandi kerfi sem stoppa okkur. Nú er aldeilis verið að brjóta upp hin ýmsu kerfi í Stjórnarráðinu, taka niður veggi á milli ráðuneyta, búa til ný ráðuneyti. Afleiðingin er að við erum með óljósan stjórnarsáttmála og við erum með drög að fjárlagafrumvarpi. Hvað leggur hv. þingmaður til? Hvað myndi hann leggja til ef hann fengi þá ósk uppfyllta að það kæmi inn bara ein tillaga sem væri raunhæf og gengi lengst í að jafna kjör þessara hópa sem hann hefur talað mest fyrir?