152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir frábæra fyrirspurn vegna þess að þetta er einmitt kjarninn í þessu: Hvað getum við gert nú þegar og það myndi virka, virka 100%? Það er mjög einfalt. Svarið er ofboðslega einfalt. Ég er ekki nákvæmlega með töluna en ég myndi segja í kringum 35.000 kr. skattalækkun. Hverju myndi það skila? Jú, stærsti hópur öryrkja yrði þá næstum því skattlaus. Þetta er sú upphæð, held ég, sem flestir eru í, annaðhvort með aðeins minna eða aðeins meira. Einhvers staðar á þessu bili, ég er ekki með alveg nákvæma tölu. Þetta myndi ég gera á stundinni. Þetta myndi skila sér beint í vasann til þeirra, beint. Ef þetta hefði verið gert um síðustu áramót ætti hellingur í þessum hópi enn fyrir mat, gæti enn leyst út lyf, sem hann annars getur ekki. Ég veit ekki hversu oft þetta fólk hefur bent á að eftir fyrstu vikuna er þetta búið og þá eru það hjálparstofnanir. Það segir okkur að það er vitlaust gefið. Það segir okkur að við getum og eigum að hjálpa þessu fólki. En við sjáum hvað ríkisstjórnin hefur mikinn áhuga á þessu og allir stjórnarliðarnir hér. 1%, það er allt og sumt sem skilar sér ekki einu sinni beint í vasann heldur skilar sér bara inn í þetta kerfi þar sem eru keðjuverkandi skerðingar út um allt og það veit enginn hver fær þúsundkall af þessu, eina krónu eða ekkert.