152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:13]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það liggja auðvitað ekki fyrir nein skilaboð frá þingflokksformönnum stjórnarflokkanna um að þingmenn í stjórnarmeirihlutanum eigi ekki að taka þátt í umræðunni eða fylgjast með henni, eftir því hvernig þeir kjósa að gera. Í það minnsta liggur ekkert slíkt fyrir af hálfu þingflokks Vinstri grænna og að ég held ekki frá neinum öðrum enda væri slíkt mjög furðuleg vinnubrögð. Ég hef verið hér að fylgjast með þessari umræðu í dag og mun halda áfram að gera það en ég held að það sé mikilvægt að koma málinu hratt og örugglega til nefndar, en að sjálfsögðu þannig að þeir þingmenn sem það kjósa geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri í ræðustóli Alþingis. Það er svo sannarlega hægt og ég fylgist með umræðunni enda skiptir það máli þegar við tökum málið til okkar í efnahags- og viðskiptanefnd.